Formaður LSS segir af sér - Nýr formaður Tollvarða

Stefán Pétursson var kjörinn formaður LSS árið 2016.

Stefán Pétursson sagði af sér formennsku í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna á opnum félagsfundi landssambandsins í gærkvöldi. Magnús Smári Smárason varaformaður var mun gegna embætti formanns fram að næsta þingi, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu, sem lesa má hér að neðan.

Þá hefur Ársæll Ársælsson stigið til hliðar sem formaður Tollvarðafélags Íslands vegna breytinga á persónulegum högum. Birna Friðfinnsdóttir,  sem verið hefur varaformaður félagsins, mun gegna embætti formanns fram að þingi félagsins.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sendi frá sér tilkynningu vegna afsagnar formanns félagsins í gærkvöldi. Hún er eftirfarandi:

Þann 5. júní sl. var haldinn opinn félagsfundur LSS, að beiðni félagsmanna okkar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, eftir að hafa safnað nægilega mörgum undirskriftum í samræmi við lög félagsins. Vel var mætt á fundinn í húsakynnum BSRB og fjölmargir tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Stefán Pétursson formaður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna (LSS) sagði af sér í lok fundar. Þetta kemur í kjölfar ólgu innan sambandsins undanfarin misseri. Stefán var kjörin formaður á 16. þingi LSS 2016 og var sjálfkjörinn í embættið á 17. þingi LSS nú í apríl. Hann hefur látið af störfum og mun Magnús Smári Smárason, varaformaður gegna embætti formanns fram að næsta þingi og varamaður tekur sæti í stjórn félagsins.

Í kjölfar síðasta aðalfundar hefur umræðan um ýmis ágreiningsmál orðið hávær. Helstu ástæður deilnanna eru m.a. ólík sjónarmið um vægi atkvæða félagsmanna eftir starfshlutfalli og um fjölda þingfulltrúa. Gagnrýni á stjórn LSS hefur einnig komið fram og hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd þingsins í apríl. Þá hafa blandast inn í umræðuna hugmyndir frá mismunandi deildum slökkviliða um að skipta Landssambandinu upp í tvo hluta eða jafnvel að leggja af núverandi landssamband og stofna nýtt. Meirihluti fundarmanna ályktaði um að síðasta þing hafi verið ólöglegt vegna formgalla. Félagsfundurinn ályktaði jafnframt um að stjórn myndi kanna möguleikann á að halda auka aðalþing á haustdögum og mun stjórn LSS vinna með þessar ályktanir á næstu dögum.

Stjórn vill koma á framfæri þökkum til fráfarandi formanns fyrir sitt starf fyrir félagið. Stjórn harmar þessar deilur innan félagsins og mun leggja sitt á vogaskálarnar til þess að farsæl lausn finnist sem allra fyrst sem félagsmenn geti sætt sig við. Þrátt fyrir óvissu um framtíðarfyrirkomulag LSS mun það ekki hafa nein áhrif á dagleg störf LSS né skerða stuðning þess við félagsmenn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?