Formaður TCO nýr atvinnuvegaráðherra í Svíþjóð

Eva Nordmark, nýr atvinnuvegaráðherra Svíþjóðar, var gestur á 45. þingi BSRB haustið 2018.

Eva Nordmark, formaður TCO, systursamtaka BSRB í Svíþjóð, var í byrjun vikunnar skipuð í embætti atvinnuvegaráðherra Sósíal-demókrata í sænsku ríkisstjórninni.

„Þetta er málaflokkur sem á hug minn allan,“ sagði Eva í samtali við Aftonbladed eftir að tilkynnt var um skipun hennar í embætti. Hún tekur við af Ylva Johansson, sem tekur nú sæti Svíþjóðar í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Evu bíða erfið verkefni í atvinnuvegaráðuneytinu, en fyrirhugaðar eru umfangsmiklar breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni sem hún mun þurfa að útfæra og fylgja úr hlaði.

BSRB hefur átt náið samband við TCO og Evu á undanförnum árum, sér í lagi í gegnum NFS, norræna verkalýðssambandið. Eva var gestur BSRB á 45. þingi þess í október 2018, þar sem hún fylgdist með þingstörfunum og kvaddi fráfarandi formann bandalagsins. BSRB óskar Evu velfarnaðar í nýjum verkefnum, með von um að áherslur hennar á jafnrétti og jöfnuð í samfélaginu fylgi henni í nýja starfinu, og þakkar henni kærlega samstarfið á undanförnum árum.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?