Forvarnir það eina sem dugir gegn kulnun

Málþingið um kulnun og álag var gríðarlega vel sótt, hvert sæti skipað og fullt út úr dyrum í salnum.

Nýjar rannsóknir á bata þeirra sem greinst hafa með kulnun sýna að erfitt getur reynst að ná fullum bata og því gríðarlega mikilvægt að huga að forvörnum áður en í óefni er komið. Þetta kom fram í erindi Ingibjargar Jónsdóttur, forstöðumaður Institute of Stress Medicine í Svíþjóð og prófessor við Gautaborgarháskóla, á málþingi BSRB um kulnun og álag í starfi í morgun.

Málþing BSRB um kulnun og álag í starfi var haldið á Reykjavík Natura hótelinu og var afar vel sótt. Um 250 manns komu á málþingið og fræddust um hvernig hægt sé að bregðast við kulnun og öðrum afleiðingum álags í starfi.

Rannsóknirnar sýna að um þriðjungur þeirra sem kominn var með alvarlega kulnun var enn með einkenni eftir sjö ár og hafði ekki náð að snúa aftur til vinnu. „Þetta segir mér að forvarnir eru eini möguleikinn, það er ekkert annað í boði,“ sagði Ingibjörg í erindi sínu.

Hún benti á að ýmsar aðferðir sem hafa gefið góðan árangur í því að koma í veg fyrir að fólk finni einkenni kulnunar, til dæmis hugræn atferlismeðferð, hreyfing og ýmislegt fleira, séu ekki nothæf tæki í að takast á við ástand þeirra sem eru lengst leiddir. Þar þurfi að beita öðrum aðferðum, enda geti alvarleg kulnun haft bein áhrif á heilastarfsemi sjúklinga.

Það er því langsamlega hagkvæmast fyrir bæði einstaklingana og samfélagið að vera með öflugar forvarnir frekar en að reyna að takast á við vandann eftir að fólk hefur þróað með sér sjúkdóma vegna kulnunar.

Enginn munur á körlum og konum

Ingibjörg sagði allar rannsóknir sýna að ekki sé munur á körlum og konum þegar kemur að kulnun, þrátt fyrir að mun hærra hlutfall kvenna finni fyrir einkennum hennar. Það hvort fólk finni fyrir kulnun snúist ekki um kyn heldur verkefnin, stjórnunina og aðstöðuna á vinnustaðnum.

Þetta skýrði hún með einföldu dæmi um verkaskiptingu karla og kvenna í frystihúsum fyrir einhverjum áratugum. Þar fengu konurnar gjarnan þreytueinkenni í axlir og víðar á meðan karlar kenndu sér ekki meins. Það hafði ekkert með líkamlegt atgervi að gera heldur verkefnin. Konurnar unnu við það allan daginn að flaka og ormahreinsa fisk á meðan karlarnir keyrðu lyftara. „Ég hefði ekki fengið í axlirnar ef ég hefði fengið að keyra lyftarann,“ sagði Ingibjörg „Þetta fjallar ekki um konur eða karla, þetta snýst um starfsumhverfið.“

Í grunnin segir Ingibjörg að einkenni kulnunar geri oftast vart við sig hjá þeim sem starfi mikið með fólki. Stór hluti af þeim hópum sem það gera á vinnumarkaði eru konur sem starfa í til dæmis í umönnunarstörfum og í kennslu. Þar sé oft gríðarlega mikið álag tengt samskiptum við fólk sem geti lagst þungt á þessar stéttir.

Ingibjörg sagði ekki hægt að finna eina lausn sem henti öllum þegar kemur að því að fyrirbyggja kulnun. Greina verði aðstæður á hverjum vinnustað og setja í ákveðið ferli. Lykilatriði sé að átta sig á því hvað valdi álaginu á starfsfólkið og vinna með það.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?