Fræðsludagur Réttindanefndar BSRB

Svanbjörg Sigmarsdóttir, sviðsstjóri endurhæfingarsviðs Tryggingastofnunnar

Árlegur Fræðsludagur Réttindanefndar BSRB var haldinn miðvikudaginn 14. janúar. Nefndin hefur það hlutverk að taka til umfjöllunar og athugunar mál sem snerta hagsmuni aðildarfélaga BSRB. Hún tekur einnig að sér fræðslu í málefnum sem snerta réttindi launafólks, þyki henni tilefni til.

Í nefndinni sitja fulltrúar tíu aðildarfélaga BSRB og lögfræðingur bandalagsins sem er starfsmaður nefndarinnar.

Fræðsludagurinn fór fram í BSRB húsinu en einnig var hægt að fylgjast með í streymi.

 

Dagskrá fundarins

Fyrsti fyrirlesari dagsins var Svanbjörg Sigmarsdóttir, sviðsstjóri endurhæfingarsviðs Tryggingastofnunnar. Hún fjallaði um breytingar sem nýlega voru gerðar á endurhæfingarkerfi stofnunarinnar. Í þeim felast meðal annars nýtt greiðslukerfi, samþætt sérfræðimat og samhæfingarteymi sem sett hafa verið á um allt land.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, kynnti næst vinnu nefndar sem hefur það hlutverk að skoða fyrirkomulag bakvakta samkvæmt bókun í gildandi kjarasamningi. Fjölnir fór yfir stöðuna og þær hugmyndir sem hafa verið til umræðu innan nefndarinnar, sem er enn starfandi og hefur ekki skilað af sér tillögum.

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB hélt síðan fyrirlestur um nýlega dóma í málum er varða veikindarétt. Hann fór yfir þær reglur sem gilda um talningu veikindadaga, hvað teljist greiðsluskyld veikindi, hvaða reglur gildi um aðkomu trúnaðarlækna og uppsagnir þegar fólk er í veikindaleyfi. Hann fjallaði einnig um þær reglur sem gilda um veitingu áminningar og nýlega dóma og gögn sem staðfesta að áminningarferlið er mun meira notað af hinu opinbera en lesa má úr almennri umræðu.

Hrannar fjallaði um rangfærslur sem hafa komið fram í umfjöllun um mál tengd áminningum ríkisstarfsmanna og færði rök fyrir því að reglur um áminningar séu ekki vandamál í mannauðsstjórnum, heldur tregða við að beita þeim reglum sem eru til staðar.

Að loknum erindum var viðstöddum gefinn kostur á að ræða ágreiningsmál sem þau hafa til meðferðar innan síns aðildarfélags undir liðnum ,,önnur mál“.

Formaður Réttindanefndar, Arna Jakobína Björnsdóttir, og starfsmaður nefndarinnar, Hrannar Már Gunnarsson, sáu um skipulag fundarins.

 

Myndir frá fræðsludeginum