Framkvæmdastjóri BSRB í ráðgjafarnefnd Landspítalans

Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, tekur sæti í ráðgjafarnefnd Landspítalans.

Heilbrigðisráðherra hefur skipað Landspítalanum ráðgjafarnefnd til næstu fjögurra ára. Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, mun taka sæti í nefndinni.

Nefndin á að vera forstjóra og framkvæmdastjórn spítalans til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans, að því er fram kemur í frétt á vef Velferðarráðuneytisins. Þá á nefndin að fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans.

Tilgangurinn með starfsemi nefndarinnar er einkum sá að efla tengsl Landspítalans við þjóðfélagið og gefa notendum þjónustunnar tækifæri til að hafa áhrif á starfsemina og þjónustu spítalans, eins og segir í erindisbréfi til nefndarmanna.

Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, hefur verið skipuð formaður nefndarinnar. Þar eiga einnig sæti Óskar Reykdalsson, lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu og Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðumaður Hjartaverndar.

Jafnt aðgengi lykilatriði

BSRB hefur skýra stefnu í heilbrigðismálum sem endurskoðuð var á síðasta þingi bandalagsins haustið 2015. Lykilatriði í þeirri stefnu er krafan um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Þar segir einnig að útgjöld til heilbrigðismála séu grundvallarforsenda hagvaxtar þar sem góð heilsa geri fólki kleift að vinna og skila sínu til samfélagsins.

„Hið opinbera á að reka heilbrigðiskerfið á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna. Kerfið á að vera skilvirkt og tryggja öllum jafnan aðgang að fyrsta flokks þjónustu. Þetta er mikilvægur þáttur þess að viðhalda öryggi og lífsgæðum fólksins í landinu,“ segir jafnframt í stefnu BSRB í heilbrigðismálum.

BSRB hefur beitt sér fyrir rannsóknum í heilbrigðismálum á undanförnum árum, sérstaklega þegar kemur að ólíkum rekstrarformum. Bandalagið hefur beitt sér gegn aukinni einkavæðingu og lagt áherslu á mikilvægi Landspítalans. Lestu um baráttu BSRB gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?