Framlínufólk þarf meira en þakklæti

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Almannaþjónustan hefur verið okkar brimvörn í gegnum faraldurinn. Starfsfólk hennar hefur staðið í framlínunni í baráttunni og verið undir gríðarlegu álagi. Ekki í nokkra daga eða vikur. Ekki í nokkra mánuði eins og við vonuðum öll í byrjun. Í um það bil eitt og hálft ár hefur líf stórs hóps fólks einkennst af baráttunni við veiruna og fórnum sem það hefur fært fyrir okkur hin.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að þessi ótrúlega öflugi hópur standi vaktina endalaust og axli þessar byrðar án þess að fá eitthvað á móti. Þakklætið eitt og sér dugir ekki til.

Heilbrigðiskerfið er löngu komið yfir þolmörk og við hjá BSRB höfum ítrekað kallað eftir því að fjárframlög til heilbrigðismála verði aukin. Þörfin var mikil áður en faraldurinn skall á og enn meiri núna. Þjóðin er okkur sammála, enda sýndi nýleg skoðanakönnun sem unnin var fyrir bandalagið að nærri átta af hverjum tíu landsmönnum vilja að hið opinbera verji meira fé í heilbrigðisþjónustuna.

Eitt af því sem þarf að gera er að tryggja framlínustarfsfólkinu sem hefur staðið vaktina í eitt og hálft ár greiðslur í samræmi við það álag sem það hefur starfað undir. Þetta er fólkið sem starfar í nánum persónulegum samskiptum við fólk á spítölunum, hjá heilsugæslunni, við sjúkraflutninga og í velferðarþjónustu við aldraða, fatlaða og sjúka. Þetta er líka starfsfólk almannavarna, lögreglan og fleiri ómissandi hópar.

Skimum eftir álagseinkennum

BSRB kallar einnig eftir því að brugðist verði við þeim langtímaafleiðingum sem álagið getur haft á framlínufólkið okkar í kjölfar faraldursins. Skima verður fyrir sjúklegri streitu, kulnun og öðrum álagseinkennum hjá þessum hópi og grípa inn í ef andlegri eða líkamlegri heilsu starfsfólks fer hrakandi.

Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur lagt allt í sölurnar fyrir okkur í heimsfaraldrinum. Nú er komið að því að við umbunum þeim og verndum þeirra heilsu.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?