Fullt út úr dyrum á baráttufundinum

Félagsmenn BSRB fjölmenntu á baráttufund fyrir bættum kjörum, í Háskólabíói í gær og var fullt út úr dyrum og góður andi í fólki. Það voru SFR, SLFÍ og LL sem stóðu að fundinum en kjaraviðræður umræddra félaga við samninganefnd ríkisins hafa lítið þokast áfram á síðustu vikum.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ, tók fyrst til máls og fjallaði um í ræðu sinni um kjör sjúkraliða og mikilvægi þeirra í keðju heilbrigðisstarfsfólk á öllum heilbrigðisstofnunum landsins.

Því næst fjallaði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, um sögu kjarabaráttu lögreglumanna og undarlega forgangsröðun núverandi stjórnvalda.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, talaði síðastur og sagði hann framkomu stjórnvalda úi garð þeirra starfsmanna ríkisins sem enn eru með lausa samninga ósvifna og sagði að lokum: „Ef það er verk­fall sem þarf til þá verður verk­fall.“

Milli þess sem að ræður formannanna voru fluttu Ragnheiður Gröndal og Guðmunds Pétursson gítarleikari lög og einnig Jónas Sigurðsson og hljómsveit hans. Fundurinn samþykkti að lokum ályktun þar sem þess var krafist að ríkisstjórn Íslands taki raunhæf skref í átt að lausn á kjaradeilu SFR, SLFÍ og LL við ríkið og að stéttarfélögum verði ekki mismunað. Ályktunin í heild sinni er hér að neðan og á eftirfarandi tengi má finna fleiri myndir frá baráttufundinum.

 

Ályktun baráttufundar SFR, SLFÍ og LL 15. september 2015

Félagsmenn á baráttufundi fyrir bættum kjörum, í Háskólabíói 15. september 2015 kl. 17, krefjast þess að ríkisstjórn Íslands taki raunhæf skref í átt að lausn á kjaradeilu SFR, SLFÍ og LL við ríkið. Staðan er grafalvarleg. Ef ekkert verður að gert stefnir í að fleiri þúsund starfsmenn innan almannaþjónustunnar fari í aðgerðir með tilheyrandi áhrifum og álagi á samfélagið allt.

Félögin hafa lagt fram sanngjarnar, raunhæfar og skýrar kröfur. Þær byggja á þeim kjarasamningum sem ríkið hefur nú þegar gert við starfsmenn sína og niðurstöðum gerðardóms. Stjórnvöld hafa hins vegar sýnt félagsmönnum BSRB grímulaust virðingarleysi með því að bjóða þeim  miklu lakari kjarabætur. Félagsmenn SFR, SLFÍ og LL geta ekki með nokkru móti sætt sig við framkomu stjórnvalda og harma afstöðu þeirra og það virðingarleysi sem birtist í tilboði þeirra og ekki síður í umfjöllun stjórnvalda um ríkisstarfsmenn.

Fundurinn krefst þess að félagsmönnum SFR, SLFÍ og LL verði ekki mismunað með þessum hætti. Tilboð samninganefndar ríkisins er til þess gert að ýta undir aukna misskiptingu og breikka bilið á milli hópa sem leiðir til aukins ójafnaðar.

Fundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við samninganefndir félaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið og lýsir því yfir að samningar um eitthvað minna en aðrir hafa fengið verða felldir. Það er grundvallaratriði að félagsmenn SFR, SLFÍ og LL fái sanngjarnar leiðréttingar á kjörum sínum í samræmi við aðra samninga sem ríkisvaldið hefur þegar gert við starfsmenn sína, sem og það sem gerðardómur hefur ákvarðað.

 

 

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?