Hvorki BSRB né ASÍ taka þátt í stofnun Þjóðhagsráðs vegna ágreinings við stjórnvöld og aðra aðila sem taka þátt í stofnun ráðsins um hlutverk þess og markmið.
Í sameiginlegri yfirlýsingu BSRB og ASÍ segir að gerð hafi verið krafa um að Þjóðhagsráð fjalli ekki aðeins um forsendur efnahagslegs stöðugleika heldur einnig forsendur fyrir félagslegum stöðugleika í íslensku samfélagi. Á það hafi ekki verið fallist.
„Fulltrúar BRSB og ASÍ hafa lagt til að myndaður verði annar samhliða vettvangur um samræðu fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu og fulltrúa samningsaðila á vinnumarkaði. Þar geti þessir aðilar freistað þess að mynda breiða samstöðu um meginviðfangsefni og forgangsröðun í uppbyggingu velferðarkerfisins og fjármögnun þess. Samræða um þessa hugmyndafræði hefur verið í gangi undanfarið en engin niðurstaða hefur náðst,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar er það harmað að þrátt fyrir þennan ágreining skuli stjórnvöld hafa ákveðið að boða til stofnfundar Þjóðhagsráðs. Það er skoðun bæði BSRB og ASÍ að ótímabært sé að stofna Þjóðhagsráð meðan ekki hafi náðst sátt um hlutverk þess og markmið. Af þessum orsökum muni hvorki BSRB né ASÍ taka þátt í stofnun Þjóðhagsráðs, né taka þátt í störfum ráðsins fyrr en niðurstaða er fengin um hvernig umræðum og samstarfi um félagslegan stöðugleika verður háttað.
Lesa má sameiginlega yfirlýsingu BSRB og ASÍ í heild sinni hér að neðan:
Undanfarið ár hafa fulltrúar þeirra samningsaðila sem eiga aðild að rammasamkomulagi á vinnumarkaði frá því í október 2015 (SALEK) átt í viðræðum við stjórnvöld og Seðlabanka Íslands um stofnun Þjóðhagsráðs. Í þeim viðræðum hefur verið ágreiningur milli fulltrúa ASÍ og BSRB annars vegar og annarra aðila að ráðinu hins vegar um hlutverk og markmið ráðsins. ASÍ og BSRB gera kröfu til þess að Þjóðhagsráð fjalli ekki einungis um forsendur efnahagslegs stöðugleika heldur einnig forsendur félagslegs stöðugleika í samfélaginu.
Fulltrúar BRSB og ASÍ hafa lagt til að myndaður verði annar samhliða vettvangur um samræðu fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu og fulltrúa samningsaðila á vinnumarkaði. Þar geti þessir aðilar freistað þess að mynda breiða samstöðu um meginviðfangsefni og forgangsröðun í uppbyggingu velferðarkerfisins og fjármögnun þess. Samræða um þessa hugmyndafræði hefur verið í gangi undanfarið en engin niðurstaða hefur náðst. Forsætisráðherra hefur boðað til stofnfundar Þjóðhagsráðs í dag, 8. júní, þrátt fyrir að engin niðurstaða sé um málsmeðferð um hina velferðarpólitísku hlið málsins.
Fulltrúar ASÍ og BSRB telja þetta miður og eru sammála um að félagslegur stöðugleiki sé ekki síður mikilvægur en efnahagslegur stöðugleiki. Það er skoðun beggja aðila að ótímabært sé að stofna Þjóðhagsráðið á meðan ekki hefur náðst sátt um hlutverk þess og markmið. Af þeim orsökum munu hvorki ASÍ né BSRB taka þátt í stofnun Þjóðhagsráðs, né taka þátt í starfi ráðsins fyrr en fyrir liggur með hvaða hætti umræðum og samstarfi um félagslegan stöðugleika verður háttað.
- Skoðun
- Fréttir
- Vinnuréttur
- Vinnuréttur
- Upphaf starfs
- Starfsævin
- Aðbúnaður starfsmanna
- Áminning í starfi
- Fæðingar- og foreldraorlof
- Breytingar á störfum
- Launagreiðslur
- Orlofsréttur
- Persónuvernd starfsmanna
- Réttindi vaktavinnufólks
- Staða og hlutverk trúnaðarmanna
- Veikindaréttur
- Munurinn á embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum
- Jafnrétti á vinnumarkaði
- Aðilaskipti að fyrirtækjum
- Lok starfs
- Aðildarfélög
- Um BSRB