Fyrirmyndarstofnanir 2016 kynntar

Niðurstöður úr könnunum á stofnunum ársins 2016 voru kynntar við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær. Um er að ræða samstarfsverkefni SFR, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, VR og Fjármálaráðuneytisins. Þetta er í ellefta árið í röð sem slík könnun er gerð.

SFR verðlaunaði þrjár stofnanir sem lentu í efsta sæti í þremur stærðarflokkum. Ríkisskattstjóri var stofnun ársins í hópi stórra stofnana, Menntaskólinn á Tröllaskaga í flokki meðalstórra stofnana og Héraðsdómur Suðurlands í flokki minni stofnana. Þá fékk Framhaldsskólinn á Laugum titilinn hástökkvari ársins 2016 fyrir mikla bætingu á milli ára.

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar verðlaunaði með svipuðum hætti tvær stofnanir sem komu best út úr könnuninni um stofnun ársins borg og bæ. Í flokki stærri stofnana fékk Frístundamiðstöðin Kampur bestu einkunnina, og í flokki minni stofnana var það skrifstofa Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur.

Bæði SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar útnefndu þær fimm stofnanir sem stóðu sig best í hverjum flokki, og fengu þær útnefninguna Fyrirmyndarstofnun. Hægt er að sjá lista yfir þær stofnanir og nánari upplýsingar með því að

fara á vefsíðu SFR og á síðu Starfsmannafélags Reykjavíkur.

BSRB óskar ölum fyrirmyndarstofnunum ársins 2016 til hamingju, og vonar að þessi könnun verði hvatning til stjórnenda stofnana um að nýta sér niðurstöður hennar til að bæta hag starfsmanna og bæta starfsemina.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?