BSRB hefur skilað umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2026 og lýsir þar miklum vonbrigðum með að frumvarpið boði áframhaldandi niðurskurð í opinberri þjónustu í stað þess að styrkja tekjugrunn ríkissjóðs.
Bandalagið fagnar áherslum á fjölgun hjúkrunarrýma, aukna geðheilbrigðisþjónustu, stuðning við börn og ungmenni í vanda, aukin framlög til löggæslu og öryggismála auk vegabóta en bendir hinsvegar á að undirliggjandi stefna fjárlagafrumvarpsins sé aðhald og sparnaður á kostnað almannaþjónustunnar.
BSRB bendir á að rót efnahagsvandans liggi ekki í útgjöldum til opinberrar þjónustu heldur í afleiðingum heimsfaraldurs, náttúruhamfara og bankahruns. Bandalagið hvetur ríkisstjórnina til að velta vaxtakostnaði ríkissjóðs ekki yfir á starfsfólk og notendur almannaþjónustunnar.
Í umsögninni er harðlega mótmælt boðuðum breytingum á mikilvægum tilfærslukerfum eins og barnabótum, vaxtabótum og atvinnuleysistryggingum, sem BSRB segir veikja stöðu launafólks og bitna mest á tekjulægri hópum.
BSRB varar einnig við því að fjárlagafrumvarpið feli í sér raunverulegan niðurskurð á heilbrigðisþjónustu þar sem sjúkrahús og heilsugæsla eigi að spara rúma þrjá milljarða með svokölluðum sértækum aðgerðum.