Fyrsta konan formaður Tollvarðafélags Íslands

Birna Friðfinnsdóttir, formaður TFÍ (til vinstri), og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Birna Friðfinnsdóttir hefur formlega tekið við embætti formanns Tollvarðafélags Íslands (TFÍ) eftir kosningar á aðalfundi félagsins. Hún er fyrsta konan sem gegnir embætti formanns félagsins.

Birna er þó ekki alls ókunnug starfinu því hún var varaformaður félagsins þar til Ársæll Ársælsson, þáverandi formaður, steig til hliðar í júlí 2018. Hún tók því við embættinu tímabundið fram að aðalfundi þann 8. mars síðastliðinn þar sem hún var kjörin formaður. Birna er einnig varamaður í stjórn BSRB.

Á aðalfundi TFÍ var kosin ný stjórn, en hana skipa, auk Birnu, þau Hallgrímur G. Færseth varformaður, Elísabet Ósk Maríusdóttir meðstjórnandi, Jón Gísli Ragnarsson ritari og Ólafur Ingibersson gjaldkeri.

Aðalfundur félagsins samþykkti ályktun um að hætt verði við áform um sameiningu embættis Tollstjóra við Ríkisskattstjóra eða aðrar stofnanir. „Ástæðan er slæm reynsla af slíkri tilraunastarfsemi, meðal annars í Danmörku. Félagsmenn óttast að þær ákvarðanir sem verða teknar muni veikja tollgæslu í landinu,“ segir meðal annars í ályktuninni. „Aðalfundur TFÍ telur að embætti Tollstjóra eigi áfram að vera sjálfstæð stofnun undir heiti Tollstjóra sem er tákn tollgæslunnar í landinu,“ segir þar jafnframt. Ályktunina í heild má finna á vef TFÍ.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?