Fyrsti fundur Formannaráðs BSRB

Formannaráð BSRB kom á miðvikudag saman í fyrsta skipti eftir að breytingar voru gerðar á lögum bandalagsins á 44. þingi þess síðasta haust. Á fundinum var farið yfir starfið á þinginu, ný lög BSRB og hlutverk Formannaráðsins. Formannaráð BSRB skipa formenn allra aðildarfélaga bandalagsins.

Meðal stærstu málanna sem farið var yfir á fundinum er undirbúningur að nýju íslensku kjarasamningalíkani. Því máli var haldið áfram á öðrum fundi á fimmtudeginum, þar sem Klaus Matthiesen, sérfræðingur frá FTF í danska kjarasamningalíkaninu, fór yfir helstu kosti þess og galla. Það sköpuðust líflegar umræður á fundinum og greinilegt að mikill áhugi er á því að nýta sér þekkingu og reynslu nágrannaþjóðanna hér á landi.

Formannaráð BSRB fjallaði einnig um stöðu húsnæðismála og frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi. Þá var fjallað um áherslu BSRB varðandi styttingu vinnuvikunnar, frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR á sölu áfengis og fleira.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?