Gerum samfélagið fjölskylduvænna

Þó það sé gott að eiga gæðastundir saman í sumarfríinu verður að huga að því að fjölga þeim á öðrum tímum ársins.

Sumarfríin eru árstíminn til að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum enda getur verið erfitt að finna tíma fyrir gæðastundir í amstri dagsins. Þó gott sé að eiga góðar stundir saman á sumrin þarf að fjölga þeim á öðrum tímum ársins. BSRB vill fjölskylduvænt samfélag og styttri vinnuviku til að ná því markmiði.

Þeir sem hafa heimsótt vini eða ættingja sem búa á hinum Norðurlöndunum hafa eflaust heyrt af lífinu hjá frændum okkar í Skandinavíu. Þar virðist launafólk eiga auðveldara með að samræma vinnu og fjölskyldulíf en við þekkjum vel flest hér á landi. Ein af skýringunum er að vinnudagurinn er almennt styttri, launafólk vinnur færri yfirvinnustundir og sveigjanleikinn er almennt meiri. Ekki má gleyma mun meiri réttindum foreldra í fæðingarorlofi sem fá almennt meiri tíma með börnum sínum áður en snúa þarf aftur til vinnu.

Fjölskylduvænt samfélag hefur verið eitt af stóru baráttumálum BSRB lengi. Fjallað er um þetta mikilvæga mál í stefnu bandalagsins sem samþykkt var á 45. þingi BSRB síðasta haust.

Bandalagið telur mikilvægt að stefna stjórnvalda hafi samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs að leiðarljósi og að samhliða vinnu við að eyða kynbundnum launamun verði möguleikar foreldra til að verja gæðatíma með fjölskyldunni aukinn, til dæmis með því að lengja fæðingarorlofið. Þá þarf að lögfesta rétt barna til öruggrar gjaldfrjálsrar dagvistunar af hálfu hins opinbera strax og fæðingarorlofi lýkur.

Vinnuvikan verði 35 stundir

Langur vinnudagur hefur neikvæð áhrif á samþættingu fjölskyldulífs og vinnu. BSRB stefnir á að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 35 án launaskerðingar og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks.

BSRB tekur þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar sem hafa sýnt greinilega fram á mikilvægi þess að stytta vinnuvikuna. Nánar er fjallað um þau verkefni hér.

Dregið verði úr árekstrum milli skóla og vinnu

BSRB telur einnig mikilvægt að skoða betur samspil atvinnulífs, skóla og heimila með það að markmiði að draga úr árekstrum og minnka álagið á launafólk. Foreldrar þekkja allir hversu erfitt það getur verið að leysa úr vandamálum tengdum starfsdögum, vetrarfríum og öðrum dögum þar sem skólar og leikskólar eru lokaðir.

Við því mætti til dæmis bregðast með sérstökum frídögum til að koma til móts við þarfir foreldra. Einnig þarf að auka réttindi fólks til fjarveru frá vinnu til að sinna veikum börnum, maka, foreldrum eða öðrum nákomnum.

Lestu meira um fjölskylduvænt samfélag í stefnu BSRB um jafnréttismál.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?