Góður undirbúningur skilar betri árangri og meiri sátt

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, kom á fund með samningseiningum BSRB í gær og fjallaði um mikilvægi góðs undirbúnings fyrir samningaviðræður og hvað skipti máli að hafa í huga þegar sest er að samningaborðinu. Samningseiningar bandalagsins komu saman til fyrsta fundar í húsnæði BSRB nýlega til að ræða helstu áherslur fyrir komandi kjarasamningsviðræður. Samningseiningarnar munu hittast reglulega á næstunni þar sem nokkur aðildarfélaga BSRB eru með lausa samninga á haustmánuðum, en meirihluti samninga aðildarfélaga BSRB eru við ríki og sveitarfélög sem eru lausir í mars á næsta ári.

Í máli Aðalsteins kom fram að góður undirbúningur sem felst m.a. greiningarvinnu, teymisvinnu og samskiptum við baklandið skilar sér í betri árangri og meiri sátt með niðurstöðuna. Þá sé nauðsynlegt að samningsaðilar setji sér skýra stefnu og markmið, skilgreina hvaða viðmið eru sett fyrir viðræðurnar og forgangsraða.

Ánægja var með fundinn og sköpuðust líflegar umræður að honum loknum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?