Grímsnes- og Grafningshreppur Sveitarfélag ársins 2022

Viðurkenningar veittar fyrir Sveitarfélag ársins 2022

Val á Sveitarfélagi ársins 2022 var tilkynnt við hátíðlega athöfn í húsi BSRB í dag.

Þetta er í fyrsta skipti sem valið fer fram en alls voru veittar fjórar viðurkenningar fyrir bestu heildarniðurstöðu þátta sem stuðla að blómlegu og heilbrigðu starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélaga. Könnunin var framkvæmd af Gallup.

Grímsnes- og Grafningshreppur er sveitarfélag ársins 2022. Árný Erla Bjarnadóttir, formaður stéttarfélagsins Foss, færði Guðnýju Helgadóttur, staðgengli sveitarstjóra blómvönd og fallegan verðlaunagrip sem er hannaður og smíðaður af Sigrúnu Björgu Aradóttur hjá Agndofa hönnunarhúsi.

Önnur sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu voru Hrunamannahreppur, Flóahreppur og Bláskógarbyggð og tóku Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri, Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri og Helgi Bjarnason, oddviti við þeim fyrir hönd sinna sveitarfélaga.

Athöfnin hófst með ljúfum tónum Mhm tríó sem er skipað þeim Ara Árelíusi, Tuma Torfasyni og Hlyn Sævarssyni.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar og varaformaður BSRB flutti opnunarávarp og kynnti verkefnið. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga ávarpaði einnig samkomuna þar sem hún sagðist meðal annars fagna þessu framtaki og það væri jákvætt að lyfta upp starfsemi sveitarfélaganna með þessu móti. Þá kynnti Tómas Bjarnason, verkefnastjóri hjá Gallup helstu niðurstöður og framkvæmd könnunarinnar.

Um Sveitarfélag ársins

Könnunin Sveitarfélag ársins hóf göngu vorið 2022 og er stefnt að því að hún framkvæmd árlega. Niðurstöður könnunarinnar veita mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi á vinnustöðum sveitarfélaganna og samanburð við aðra vinnustaði.

Tilgangurinn er að hvetja stjórnendur sveitarfélaganna til að veita starfsumhverfinu meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Einnig er ætlunin að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum félagsfólki stéttarfélaganna til hagsbóta. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.

Sveitarfélag ársins er samstarfsverkefni tíu bæjarstarfmannafélaga innan BSRB: Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Vestmannaeyja, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi.

Gögnum var safnað á tímabilinu apríl til júní 2022. Framkvæmd könnunarinnar var með þeim hætti að Gallup sendi út spurningalista samkvæmt félagsmannalista frá þeim tíu stéttarfélögum sem að henni standa.

Alls voru tæplega 5000 manns í heildarúrtaki en tæplega 4700 í endanlegu úrtaki. Þar af voru tæplega 1400 svör notuð í úrvinnslu eða tæp 30% af endanlegu úrtaki.

Félögin geta borið niðurstöður saman við niðurstöður úr sambærilegum könnunum á borð við könnun VR og Sameykis og stofnun ársins. Könnunin getur þannig orðið félögunum öflugt tæki til að berjast fyrir bættu starfsumhverfi fyrir sína félagsmenn.

Nánari upplýsingar um könnunina má nálgast á heimasíðu Sveitarfélags ársins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?