Heimsóknir til aðildarfélaga halda áfram

Formaður og framkvæmdastjóri BSRB hafa fundað með fulltrúum fjölmargra aðildarfélaga undanfarið.

Formaður og framkvæmdastjóri BSRB hafa haldið áfram að funda með stjórnum aðildarfélaga bandalagsins undanfarnar vikur og hafa nú heimsótt rúmlega helming aðildarfélaga frá því um miðjan janúar.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir tók við embætti formanns BSRB á þingi bandalagsins um miðjan október síðastliðinn og Magnús Már Guðmundsson kom til starfa framkvæmdastjóri í janúar. Þau hitta formenn aðildarfélagana reglulega á fundum formannaráðs og þegar samningseiningar bandalagsins funda, en það er mikilvægt fyrir þau að hitta starfsmenn og stjórnir aðildarfélaganna og heyra í þeim hljóðið.

Frá því um miðjan janúar hafa þau Sonja og Magnús hitt stjórnir Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, Félags íslenskra flugumferðarstjóra, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, FOSS, stéttarfélags í almannaþjónustu, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Félags starfsmanna stjórnarráðsins, Kjalar, stéttarfélag starfsmanna í almannaþágu, Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Póstmannafélags Íslands, Starfsmannafélags Fjarðabyggðar og Starfsmannafélags Húsavíkur. Þá hafa þau fundað með trúnaðarmannaráðum Sameykis og Sjúkraliðafélags Íslands.

Á fundunum hefur meðal annars verið rætt um áherslur aðildarfélaganna í komandi kjaraviðræðum og þau mál sem skipta félagsmenn hvers félags mestu. Þar hefur stytting vinnuvikunnar víðast verið eitt af þeim málum sem mest áhersla hefur verið lögð á.

Fundir formanns og framkvæmdastjóra BSRB með fulltrúum aðildarfélaga munu halda áfram á næstunni, þó annir vegna gerð kjarasamninga geti gert það að verkum að þeir dragist eitthvað.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?