Fræðsla um hinsegin málefni

Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna 78

Jafnréttisnefnd BSRB stóð fyrir opnum fræðslufundi um hinsegin málefni fyrir formenn og starfsfólk aðildarfélaga BSRB í dag. Fræðslustýra Samtakanna 78, Tótla I. Sæmundsdóttir, var með erindi.

Í erindi sínu fjallaði Tótla um hinseginleikann og fór yfir fjölbreytileika kyns og kynverundar. Meðal þeirra hugtaka sem hún fjallaði um eru kynhneigð, kynvitund, kyntjáning, trans, sís, kynsegin, tvíkynhneigð og eikynhneigð. Hún fjallaði einnig um hversu mikilvægt það er að bera virðingu fyrir fólki og hvernig það vill láta tala um og við sig, svo sem með því að nota rétt persónufornöfn (hann, hún, hán).

Þá fjallaði hún um jákvæða þróun í hinsegin málefnum á Íslandi undanfarið, svo sem lög um kynrænt sjálfræði frá 2019 og mikilvægar réttarbætur í málefnum intersex barna, en að baráttan héldi stöðugt áfram. Hinsegin fólk mætir enn miklum fordómum í samfélaginu og hún lagði áherslu á að fræðsla væri besta leiðin til þess að uppræta þá. BSRB styður baráttu hinsegin fólks og hvetur félagsfólk til að kynna sér fræðsluefni á heimasíðu Samtakanna 78 eða með því að bóka fræðslu og ráðgjöf hjá samtökunum sérstaklega.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?