„Hvenær kemur slökkviliðsmaðurinn?“

Góð þátttaka var á hádegisverðarfundinum.

Konur sem eiga það sameiginlegt að vinna á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meirihluta voru í sviðsljósinu á hádegisverðarfundi sem haldinn var í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Birna BjörnsdóttirEin af þeim sem sagði frá sinni upplifun var Birna Björnsdóttir, sem um talsvert skeið var eina konan í stöðu slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanns hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

„Mér var ágætlega tekið í hópnum,“ sagði Birna. „En ég er líka ágætlega öflug, margir þessir strákar eiga ekkert roð í mig.“ Hún sagði að þrátt fyrir að hafa verið tekið vel af vinnufélögunum þurfi hún, eins og margar konur sem vinni á karlavinnustöðum, að þola fordóma.

Hún sagði frá því þegar hún heimsótti leikskóla til að ræða um forvarnir. Eftir að hafa rætt við fimm ára börn um slökkvitæki, reykskynjara og fleira var komið að börnunum að spyrja. „Ég sá að það var einn strákur sem sat framarlega og iðaði, ég vissi að þessi myndi spyrja,“ sagði Birna. Hana óraði samt ekki fyrir því hver spurningin yrði þegar sá stutti spurði einfaldlega: „Hvenær kemur slökkviliðsmaðurinn?“

 

„Áttu börn?“

Eva Björk Sigurjónsdóttir„Þegar ég byrjaði í náminu spurðu mig allir hvað ég væri að pæla, það væri ekki séns fyrir mig að komast á samning,“ sagði Eva Björk Sigurjónsdóttir húsasmiður. Hún segir að fyrstu samtölin við mögulega vinnuveitendur hafi ekki lofað góðu. Alltaf hafi sama spurningin komið upp: „Það var alltaf spurt „áttu börn?“. Ég spurði strákana, þeir fengu aldrei þessa spurningu,“ sagði Eva Björk.

Hún segir að sá vinnuveitandi sem á endanum hafi ráðið hana til starfa hafi virkilega viljað fá konu til starfa, og þar starfar hún enn í dag. Þrátt fyrir það segir hún upplifa starfið þannig að hún þurfi að sanna sig tífalt meira en „strákarnir“.

Eva Björk segir mikilvægt að konur sæki í störf þar sem karlmenn séu í meirihluta, þó að hlutföllin þurfi ekki endilega að vera jöfn. „Aðal málið er sýnileiki. Með fleiri konum verður sýnileikinn meiri.“ Hún sagði konur mæta veggjum alstaðar. „Það er bara þannig, en við þurfum svolítið að læra að velja okkur bardagana.“

 

Beðin um að dansa á nærfötunum

Lára RúnarsdóttirLára Rúnarsdóttir, formaður Félags kvenna í tónlist, sagðist upplifa sterk karllæg viðhorf sem tónlistarkona. „Það er gaman að vera tónlistarkona, það er bæði gefandi og losandi að ná að tjá sig í gegnum tónlistina,“ sagði hún. Þrátt fyrir það sé erfitt að þrífast enda margir veggir sem konur í þessum bransa reki sig á.

Hún nefndi nokkur dæmi: „Það er oft talað við mig eins og ég sé barn, sérstaklega þegar kemur að einhverju varðandi tækni,“ sagði Lára. Þá hafi hún verið beðin um að dansa á nærfötunum á tónleikum og sagt að það væri gott til að byggja upp tengslanetið. Þá fái hún oft að heyra að lögin hennar séu góð þegar karlar spili með henni.

„Það er mjög mikilvægt að konur séu í rokki,“ sagði Lára. Hún sagði það skipta miklu fyrir konur í þessum bransa að hafa samtök á borð við Félag kvenna í tónlist. Viðhorfið á Íslandi virðist stundum vera að jafnrétti sé komið. „Það er ekki þannig, við verðum að vinna að því áfram.“

Að fundinum stóðu Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands) og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?