Jákvætt að vinna heima segja félagsmenn Sameykis

Fjallað er um könnunina í tímariti Sameykis.

Niðurstöður könnunar sem gerð var meðal félagsmanna Sameykis, stærsta aðildarfélags BSRB, sýna að meirihluti þeirra telur það jákvætt að vinna heima. Alls töldu rúmlega 57 prósent það mjög eða frekar jákvætt að vinna heima, um 23 prósent voru hlutlaus en tæp 15 prósent töldu það mjög eða frekar neikvætt.

Fjallað er um könnunina í nýjasta eintaki tímarits Sameykis, sem kom út í dag. Í könnuninni kom fram að innan við helmingur svarenda, um 40 prósent, vann heima í faraldrinum og að af þeim sem það gerðu hafði meirihlutinn, rúm 60 prósent, ekkert val.

„Meirihluti fólks sem fór heim að vinna taldi það jákvætt,“ sagði Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, í viðtali við Spegilinn nýverið. Hann segir ekki hægt að fullyrða út frá þessu að starfsfólkið vilji halda í þetta fyrirkomulag, enda hafi ýmislegt komið fram í könnuninni um líkamlega og andlega heilsu, fjölskyldulífið og vellíðan almennt.

Hann sagði framhaldið óljóst en mögulega geti það orðið þannig í framtíðinni að starfsfólk eigi val um að vinna heima en þá vakni fjölmargar spurningar um samband launafólks og atvinnurekenda sem þurfi að útkljá í kjarasamningsviðræðum.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?