Jólagjöf Alþingis til þeirra ríkustu

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB.

Skattalækkanir á fjármagnstekjur fyrir eignamesta fólkið í landinu sem Alþingi samþykkti með hraði fyrir jól ganga þvert á vilja verkalýðshreyfingarinnar og öll markmið um aukinn jöfnuð. Ófjármagnaðar skattalækkanir á kjörtímabilinu nema nú um 34 milljörðum króna árlega, fyrir utan tímabundnar aðgerðir vegna heimsfaraldursins, og hafa valdið því að rekstur ríkissjóðs er ósjálfbær. Tekjur ríkissjóðs munu því ekki standa undir útgjöldunum í eðlilegu árferði.

Breytingar á tekjuskatti nú í ársbyrjun lækka skatta fólks á lágmarkslaunum um tæplega 3.000 krónur á mánuði eða 34.500 krónur á ári. Á síðustu dögum þingsins fyrir jól var svo samþykkt að hækka frítekjumark vaxtatekna og nær það nú einnig til arðs og söluhagnaðar af hlutabréfum. Breytingin nýtist þeim sem eru með fjármagnstekjur umfram 150 þúsund krónur á ári og getur árleg skattalækkun þeirra numið allt að 33.000 krónum.

Krónutölulækkun tekjuskatts fyrir fólk á lágmarkslaunum er því nánast sú sama og fólst í jólagjöf Alþingis til eignamesta fólksins í landinu.

Við hjá BSRB höfum kallað eftir því að jöfnunarhlutverk skattkerfisins verði aukið og að fjármagnstekjur verði skattlagðar með sama hætti og aðrar tekjur. Bent hefur verið á að fjármagnstekjuskattur er lægri hér en á Norðurlöndum og öðrum samanburðarlöndum. Skattbyrði hefur aukist á síðustu 20 árum í öllum tekjutíundum nema þeirri hæstu þar sem hún hefur lækkað og það langmest hjá tekjuhæsta eina prósentinu vegna þess að tekjur þeirra eru að stórum hluta fjármagnstekjur.

BSRB hefur ítrekað lýst eftir ábyrgri efnahagsstjórn með áherslu á jöfnuð og sterka samfélagsinnviði. Það veldur því ugg að nú í miðjum heimsfaraldri séu skattar á þá ríkustu lækkaðir á sama tíma og mikilvægar stofnanir ríkisins, til dæmis í heilbrigðis- og menntakerfinu, sæta aðhaldskröfu og frekari niðurskurður sé áformaður á næstu árum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?