Kaldar kveðjur frá ríkisstjórninni til starfsfólks almannaþjónustunnar

Ályktun stjórnar BSRB um skerðingu ríkisstjórnarinnar á réttindum starfsfólks í almannaþjónustu

Ályktun stjórnar BSRB um skerðingu ríkisstjórnarinnar á réttindum starfsfólks í almannaþjónustu

 

Stjórn BSRB fordæmir áform ríkisstjórnarinnar um að skerða réttindi starfsfólks í almannaþjónustu með afnámi áminningarskyldu. Ríkisstjórnin hyggst gera þetta án samráðs við heildarsamtök launafólks og án þess að meta áhrifin með nokkrum hætti. Stjórn BSRB ítrekar að um klárt brot á samráðsskyldu samkvæmt starfsmannalögum sé að ræða, og þeim leikreglum sem gilda samkvæmt íslenska vinnumarkaðsmódelinu.

Starfsfólk almannaþjónustunnar starfar undir miklu álagi í bæði líkamlega og andlega krefjandi störfum, flest í heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntakerfinu og á sviði öryggismála. Viðvarandi mannekla er ein helsta áskorun í þeirra starfi. Brýnasta verkefni stjórnvalda í starfsmannamálum felst í aðgerðum til að vinna gegn manneklu, atgervisflótta, starfsmannaveltu og að draga úr veikindum vegna álags í starfi. Í staðinn fyrir að takast á við það, ætlar ríkisstjórnin að skerða réttindi þessa hóps með fordæmalausum hætti.

Umræða um að ekki sé hægt að segja upp starfsfólki sem stendur sig ekki í starfi stenst ekki skoðun. Af þeim málum sem koma á borð BSRB og dómaframkvæmd er ljóst að núgildandi reglur eru ekki fyrirstaða við að tryggja gæði, fagmennsku og gott starfsumhverfi hjá hinu opinbera. Markmið ákvæða um áminningu sem undanfara uppsagnar er að koma í veg fyrir að stjórnendur taki óupplýstar ákvarðanir af eigin geðþótta eða misbeiti valdi sínu, s.s. með því að hrekja gott fólk úr starfi, búa til klíkur eða með því að beita ógnarstjórnun. Það er sjálfsögð og eðlileg regla sem ætti að gilda á öllum vinnumarkaði.

Auk þessara áforma ætlar ríkisstjórnin sér, án samráðs, að skerða rétt launafólks til atvinnuleysistrygginga og afnema jöfnunarframlag til lífeyrissjóða vegna mismunandi örorkubyrði. Stjórn BSRB krefst þess að ríkisstjórnin dragi öll þessi áform til baka og stuðli þannig að áframhaldandi friði á vinnumarkaði.