Karlar síður í hlutastörfum

Á vef velferðarráðuneytisins segir að á bilinu 30–48% kvenna á Norðurlöndunum sem vinna hlutastörf segjast gera það vegna fjölskyldunnar. Mun færri karlar en konur vinna hlutastörf og þeir nefna miklu síður en konur að það sé fjölskyldunnar vegna. Í norrænni rannsókn nefndi enginn íslenskur karl að hann ynni hlutastarf vegna fjölskyldunnar. Frá þessu er sagt í nýjasta tölublaði Arbeidsliv i Norden.

Rannsóknin var kynnt á norrænni ráðstefnu í Stokkhólmi 22. október sem haldin var að frumkvæði Svía sem fara með formennsku á þessu ári í Norrænu ráðherranefndinni. Ráðstefnan fjallaði um ýmsar hliðar hlutastarfa og áhrif þeirra á stöðu kynjanna.

Hlutfall kvenna sem vinnur hlutastörf er hæst í Noregi (36%), næsthæst í Svíþjóð (31%), þá í Danmörku (29%), á Íslandi (26%) og lægst í Finnlandi (16%). Karlar í hlutastörfum eru mun færri alls staðar á Norðurlöndunum, eða um 10% í Noregi þar sem hlutfallið er hæst og um 6% á Íslandi þar sem hlutfallið er lægst.

Í rannsókninni voru bæði kynin spurð hver væri ástæða þess að þau væru í hlutastarfi. Á bilinu 30–48% kvenna sögðu að þær væru í hlutastarfi fjölskyldunnar vegna. Enginn af íslensku körlunum nefndi fjölskylduna sem ástæðu og aðeins 4% norskra karla. Hlutfall karla sem nefndi fjölskylduna sem ástæðu var á bilinu 23–39% í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Ástæður sem karlar nefndu einkum fyrir voru veikindi eða að þeir væru í námi.
Nánar á vefnum Arbeidsliv i Norden

Hlutfall karla og kvenna á aldrinum 25–64 ára í hlutastörfum árið 2012


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?