Kertafleyting friðarsinna á Reykjavíkurtjörn

Kertum verður fleytt á Reykjavíkurtjörn og á Minjasafnstjörninni á Akureyri miðvikudagskvöldið 9. ágúst.

Kertum verður fleytt á Reykjavíkurtjörn og á Minjasafnstjörninni á Akureyri miðvikudagskvöldið 9. ágúst til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Þetta verður 33. kertafleytingin hér á landi, en í ár eru 72 ár liðin frá því kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar tvær.

Með kertafleytingunni vilja friðarsinnar árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna. Nýverið gerðu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna með sér sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum en Ísland hefur ekki undirritað sáttmálann. Íslenskir andstæðingar kjarnorkuvopna krefjast þess að Ísland gerist aðili að þessu samkomulagi án tafar.

Kertafleytingin á Reykjavíkurtjörn hefst klukkan 22:30 miðvikudaginn 9. ágúst og verður safnast saman við suðvestur bakka Tjarnarinar, við Skothúsveg. Flotkerti verða seld á staðnum. Halla Gunnarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur flytur ávarp, en fundarstjóri verður Stefán Pálsson sagnfræðingur. Á Akureyri hefst fleytingin klukkan 22 og fer fram á Minjasafnstjörninni. Þar verður ræðumaður Logi Einarsson, alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar.

BSRB hvetur alla til að mæta og taka þátt í að krefjast heims án kjarnorkuvopna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?