Kjarakönnun SFR og STRV

Árleg launakönnun tveggja stærstu aðildarfélaga BSRB, SFR stéttarfélags og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv.), sem framkvæmd er af Capacent leiðir í ljós að hækkun heildarlauna hjá félögunum eru á bilinu 5-7% milli ára. SFR félagar hækkuðu að meðaltali um 7% en félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar um 5%. Kjarasamningsbundnar hækkanir hjá félögunum á tímabilinu voru krónutöluhækkanir og 3,25-3,5%. Þetta þýðir að laun félagsmanna hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hafa ekki haldið í við launavísitöluna og er það mikið áhyggjuefni. SFR félagar hafa hins vegar ná að halda í við launavísitölu á tímabilinu, þó laun margra séu enn lág.

Það sem hins vegar verður að hafa í huga þegar launaþróunin er skoðuð og hún borin saman við vísitölu er að launahækkanir þeirra sem lægstu launin hafa hækka hlutfallslega meira en hinna, þar sem notuð var krónutöluhækkun. Enn mælist þó nokkuð mikil óánægja með laun hjá báðum félögum en mismikil þó milli starfsstétta. Enda hafa starfsstéttir innan félaganna notið mismikilla hækkana og bilið milli þeirra hæstu og lægstu hefur aukist. Hjá SFR hafa þeir hæst launuðustu um þreföld laun þeirra sem lægstu launin hafa.

Kynbundinn launamunur enn til staðar

Kynbundinn launamunur er nú 6% hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar en hefur verið um 8-10% síðustu þrjú ár. Hjá SFR eru hins vegar vísbendingar um að kynbundinn launamunur sé aftur að aukast eftir að dregið hafi lítillega úr honum undanfarin ár, en kynbundinn launamunur SFR félaga fór úr 7% árið 2013 í 10% nú. Við útreikninga liggja til grundvallar heildarlaun fólks í fullu starfi. Tekið er tillit til áhrifa fjölmargra þátta í útreikningunum þannig að sá munur sem fram kemur á launum karla og kvenna skýrist ekki af mismunandi vinnutíma, ólíkum starfsgreinum, atvinnugreinum, eða vegna mismunar á aldri, starfsaldri, menntun, eða mannaforráðum karla og kvenna. Niðurstöður kannananna sýna einnig að karlar eru enn mun líklegri til að fá aukagreiðslur og hlunnindi í starfi en konur. Þannig fá 21% kvenna hjá SFR engar aukagreiðslur en aðeins 7% karla. Munurinn á aukagreiðslum milli kynjanna hjá St.Rv. er hins vegar aðeins minni.

Það er sannarlega jákvætt að sjá að það dregur úr kynbundnum launamun hjá félagsmönnum St.Rv. en hins vegar er aukinn kynbundinn launamunur meðal félagsmanna SFR áhyggjuefni og einnig mismunurinn á aukagreiðslum og hlunnindum sem við sjáum að er á milli kynjanna. Þessar reglulegu mælingar félaganna sýna að hvergi má slaka á í baráttunni fyrir launajafnrétti.

Minnkandi starfsöryggi og aukinn starfsmannavelta

Í könnununum er einnig mælt álag og starfsöryggi og sýna niðurstöður að álag mælist enn mikið hjá báðum félögum. 54% félaga í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar telur vinnuálag sitt of mikið en 42% hjá SFR stéttarfélagi. Þá stendur tilfinning félagsmanna fyrir starfsöryggi í stað milli ára, en þó hafa fleiri félagsmenn SFR tilfinningu fyrir minnkuðu starfsöryggi en áður, eða um 13%. Þetta skýrist m.a. af stefnu stjórnvalda um sameiningar og niðurskurð ríkisstofnana sem óneitanlega hefur mikil áhrif á starfsöryggi opinberra starfsmanna.

Í könnununum má glöggt sjá að ánægja með lífið og tilveruna helst í hendur við tilfinningu fólks fyrir starfsöryggi og ánægju með laun. Þeir sem telja sig búa við starfsöryggi og eru ánægðir með launakjör sín eru hve ánægðastir meðan þeir sem telja sig búa við lítið starfsöryggi og eru óánægðir með launakjör sín eru einnig óánægðastir með lífið og tilveruna.

 

Nánari upplýsingar um kannanirnar má finna á heimasíðum félaganna www.strv.is  og www.sfr.is

http://strv.is/frettasida/a-dofinni/nr/1057/

http://www.sfr.is/kannanir-sfr/launakonnun-sfr/launakonnun-2014/


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?