Kjarasamningur PFÍ samþykktur

Póstmannafélag Íslands hefur samþykkt nýjan kjarasamning við Íslandspóst. Samningurinn var samþykktur með 73% greiddra atkvæða. Á kjörskrá voru 866 en atkvæði greiddu 398 sem gerir kosningaþátttöku upp á 46%.

Póstmannafélagið er þar með fyrsta aðildarfélag BSRB sem samþykkir nýja kjarasamninga í atkvæðagreiðslu en fyrir skemmstu höfnuðu bæði Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og SFR-stéttarfélag í almannaþjónustu nýjum samningum við Reykjavíkurborg.

Samningurinn sem PFÍ hefur nú samþykkt gildir frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015.

Helstu atriði nýs kjarasamnings PFÍ eru að:

  • frá 1. febrúar hækka laun og aðrir launaliðir um 2.8% þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir fulla dagvinnu miðað við fullt starf.
  • Allir félagsmenn Póstmannafélagsins sem nú taka laun samkvæmt launaflokki 8 – 16 fá hækkun um einn launaflokk. Þ.e. sá sem er í launaflokki 8 færist í launaflokk 9 o.s.frv. Í stað launabreytingar frá 1. janúar 2014 greiðist sérstök eingreiðsla 14.600 kr. m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014 .
  • Orlofsuppbót fyrir 2014 verður kr. 39.500.
  • Desemberuppbót fyrir 2014 verður kr. 73.400.
  • Fæðisfé á samningstímabilinu verður kr. 8.150 á mánuði.
  • Skópeningar bréfbera og bílstjóra sem ekki fá afhenta öryggisskó verða kr. 28.500 á ári miðað við fullt starf.
  • Kjarasamningurinn gildir til 28. febrúar 2015. Samningurinn byggir á sömu forsendum og kjarasamningur SA og ASÍ frá 21. desember 2013.
  • Aðrir liðir kjarasamningsins framlengjast óbreyttir. Á samningstímanum mun verða unnið við breytingar á þeim liðum í kröfugerðum aðila sem lagðar voru fram í upphafi viðræðna og ekki var lokið við gerð þessa samnings. Sú vinna verður samkvæmt viðræðuáætlun sem aðilar munu koma sér saman um.
  • Yfirlýsing 8 sem fylgdi fyrri samningi stendur en er nú yfirlýsing 6 gildir fyrir alla vaktavinnumenn sem eru í starfi við undirritun samningsins ef verður af breytingu þeirri á vaktafyrirkomulagi sem kemur fram í yfirlýsingunni. Sjá kafla 3.8.5. í kjarasamningi.
  • Þann 1. janúar 2015 hækkar framlag í starfsmenntunarsjóð um 0,1% og verður þá 0,28%.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?