Köllum einkavæðingu sínu rétta nafni

Það er mikilvægt að hengja sig ekki í smáatriðin þegar tækla á stór mál eins og áform stjórnvalda um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Stundum þarf þó að klára umræðu um smáatriðin svo hægt sé að taka fyrir það sem máli skiptir. Borið hefur á að því sé haldið fram að einkarekstur í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sé ekki aukin einkavæðing. Það hrekur Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur í pistli sem hún skrifar í nýjasta eintak Stundarinnar.

Sigurbjörg var einn gesta á málþingi BSRB og ASÍ í byrjun maí þar sem fjallað var um áform heilbrigðisráðherra um að koma á fót þremur einkarekum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Á málþinginu sagði fulltrúi heilsugæslulækna það fráleitt að kalla einkarekstur einkavæðingu. Því mótmælti Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, raunar í grein sem birtist í Fréttablaðinu nýverið.

Sigurbjörg sagði það skýrt hjá bæði íslenskum og erlendum fræðimönnum að einkarekstur sé í raun einkavæðing. Það byggir á áralöngum rannsóknum á heilbrigðismálum hér á landi og erlendis. Í pistli hennar í Stundinni heldur hún áfram að færa rök fyrir þessu sjónarmiði.

„Þá skaltu hætta að kvarta og grjóthalda kjafti“
„Ef þú lesandi góður vilt hafa eitthvað um skipulag og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu að segja, þá ættir þú einmitt að hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem koma frá þeim sem hafa hvorki pólitískra né beinna fjárhagslegra eða vinnutengdra hagsmuna að gæta við skipulag kerfisins,“ skrifar Sigurbjörg.

„Ef þú hins vegar kærir þig kollóttan um þetta og lætur læknum og stjórnmálamönnum þetta einum eftir, þá skaltu hætta að kvarta og grjóthalda kjafti næst þegar þér svelgist á við það að þurfa að taka upp veskið og greiða fyrir læknisþjónustu sem þú telur þig þó hafa greitt með sköttunum þínum. Hvers vegna? Jú, það eru stjórnmálamenn sem í þínu umboði heimila læknum að rukka þig. Læknar hafa svo beitt þeirri heimild til að ná fram hækkunum sem ekki hafa náðst í samningum, - og stjórnmálamenn í þínu umboði hafa lagt blessun sína yfir það,“ segir hún í pistli sínum úr Stundinni.

Einföld skilgreining
Sigurbjörg segir skilgreininguna ekki flókna: „Einkarekstur er einkavæðing á þjónustu sem veitt er innan okkar opinbera heilbrigðiskerfis sem áfram er fjármagnað að mestu með sköttum. Slíkum einkarekstri er náð fram með opinberu stjórntæki sem kallast þjónustusamningar.“

Það er full ástæða til að mæla með því að þeir sem eru áhugasamir um þetta málefni lesi pistil Sigurbjargar í heild sinni á vef Stundarinnar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?