Könnun sýnir aukið álag í heimsfaraldrinum

Stór hluti launafólks upplifði aukið álag í starfi á tímum COVID-19 heimsfaraldursins.

Rúmlega helmingur opinberra starfsmanna upplifði aukið álag í starfi í vegna COVID-19 faraldursins samkvæmt könnun sem unnin var af rannsóknarfyrirtækinu Maskínu fyrir BSRB. Álagið jókst einnig á almenna markaðinum þar sem rúmur þriðjungur upplifði aukið álag.

Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvort álag í starfi hafi aukist, minnkað eða staðið í stað. Þegar heildin er skoðuð sögðust um fjórir af hverjum tíu, um 41 prósent, að álagið hafi aukist vegna faraldursins. Hjá um þriðjungi hafði álagið staðið í stað en hjá um 26 prósentum hafði álagið minnkað.

Áberandi munur var á svörum þeirra sem starfa hjá hinu opinbera og þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði. Mikið álag var á almannaþjónustuna í faraldrinum sem tölurnar sýna vel. Þannig sögðust sagðist rúmlega helmingur, eða 53 prósent þeirra sem starfa á hjá ríki og sveitarfélögum að álag í starfi hafi aukist vegna faraldursins. Hjá um 26 prósentum opinberra starfsmanna hafði álagið staðið í stað en 21 prósent upplifðu minna álag í starfi.

Á almenna vinnumarkaðinum voru nokkuð fleiri sem upplifðu minna álag og hlutfallslega færri sem upplifðu aukið álag, sem kemur ekki á óvart enda hrun í ákveðnum geirum samfélagsins, svo sem ferðaþjónustunni. Á almenna markaðinum sögðu um 36 prósent álag í starfi hafa aukist. Um 33 prósent upplifðu ekki breytingu á álagi og 31 prósent sögðu álagið hafa minnkað.

Þessar niðurstöður sýna hversu mikið álag hefur verið á stórum hluta almannaþjónustunnar í þessum heimsfaraldri, og þótti flestum nóg um álagið fyrir. Stjórnendur hjá hinu opinbera verða að átta sig á mögulegum afleiðingum af þessu aukna álagi. Starfsfólkið getur ekki hlaupið endalaust og álagið getur haft veruleg áhrif á lífsgæði og heilsu með aukinni hættu á kulnun í starfi og ýmsum álagstengdum veikindum. 
– Magnús Már Guðmundsson framkvæmdastjóri BSRB

Aðeins stendur til að greiða sérstaklega fyrir aukið álag hjá litlum hluta þeirra sem nú upplifa aukið álag í starfi. Nærri 87 prósent sögðust í könnuninni ekki eiga von á því að fá greitt fyrir aukið álag. 

 

Grafík - Hefur álag aukist eða minnkað?

 

Stór hluti upplifði fleiri gæðastundir

Þrátt fyrir aukið álag í starfi hjá stórum hluta sagðist meira en helmingur þeirra sem tóku þátt í könnuninni hafa upplifað fleiri gæðastundir með fjölskyldunni í COVID-19 faraldrinum en fyrir hann. Alls sögðust 50,4 prósent hafa upplifað að gæðastundum með fjölskyldunni hafi fjölgað nokkuð eða mikið, en 24,7 prósent sögðu að gæðastundunum hafi fækkað nokkuð eða mikið vegna faraldursins.

Þó það kunni að virka eins og þversögn að gæðastundum með fjölskyldunni fjölgi þrátt fyrir að stór hópur upplifi aukið álag í starfi geta verið ýmsar skýringar á því. Einhverjir hafa eflaust upplifað gæðastundir með fjölskyldu þegar þeir og aðrir fjölskyldumeðlimir sinntu vinnu og skóla saman á heimilinu. Aðrir hafa upplifað minna álag í starfi, farið á hlutabætur eða misst vinnuna og því haft meiri tíma með fjölskyldu.

Rannsóknin var unnin af rannsóknarfyrirtækinu Maskínu fyrir BSRB dagana 24. apríl til 4. maí. Markmiðið með rannsókninni var að meta áhrif COVID-19 heimsfaraldursins á líf og störf íslensks launafólks. Þátttakendur voru 1.050 talsins, 18 ára og eldri, allstaðar að af landinu. Hópurinn sem tók þátt endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

Fleiri fréttir um niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar á næstu dögum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?