Konur hafa haldið upp velferðinni á afslætti – það er kominn tími til að leiðrétta það

Hagspá Landsbankans var birt í gær og kynnt á fundi í Silfurbergi í Hörpu. Í lok fundar voru pallborðsumræður þar sem Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Kristján Þórður Snæbjarnarson, sitjandi forseti ASÍ, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB ræddu um vinnumarkaðinn og komandi kjarasamningsviðræður.

Aðspurð hvort BSRB myndi slá af kröfum sínum í komandi kjarasamningum sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, að út frá niðurstöðum Kjaratölfræðinefndar væru launin alltaf lægst á opinberum vinnumarkaði og langlægst hjá sveitarfélögunum. Það væri hlutverk BSRB að tryggja lífskjör og lífsgæði félagsfólks. „Þannig erum við að axla okkar ábyrgð – við erum að tryggja að okkar fólk nái endum saman.“

Sonja sagði löngu tímabært að velta því upp hvernig við ætlum að styrkja almannaþjónustuna og búa til velferð til framtíðar. Þriðjungur launafólks ætti erfitt með ná endum saman og fjórðungur leigjenda byggi við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Þetta væru hópar sem BSRB væri að horfa til í kjarasamningum og það væri ekki nóg að skoða hvað fólk fær í launaumslaginu heldur skipti máli hvernig tilfærslukerfin væru nýtt. Miðað við frumvarp til fjárlaga eins og þau líti út núna ætli ríkisstjórnin ekki að styrkja stöðu þessara hópa en boði þessa í stað til niðurskurðar og aðhalds í almannaþjónustunni. Þá muni aukin almenn gjöld sem leggjast eiga jafnt á alla koma verst niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna.

Þá sagði Sonja stóra málið vera að 2/3 félagsfólks í aðildarfélögum BSRB væru konur sem staðið hafi vaktina í heimsfaraldrinum og haldið uppi velferðarkerfinu. Meginástæðan fyrir launamun kynjanna væri vegna þess hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er. Það væri meirihluti kvenna sem sinnti tilteknum störfum, aðallega í almannaþjónustunni og hjá hinu opinbera og svo væru karlmenn í meirihluta í tilteknum stéttum. Það væru kvennastéttirnar sem alltaf fái lægstu launin. „Við getum raunverulega sagt það að þessar konur hafi verið að skila sinni vinnu og haldið uppi velferðinni á afslætti á undanförnum áratugum og það er kominn tími til að leiðrétta það. Það verður eitt af stóru málunum hjá okkur í komandi kjarasamningum“, sagði Sonja.

Frétt um fundinn er einnig að finna á heimasíðu Sameykis og þar er hægt að nálgast upptöku af fundinum


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?