Kosið um enn frekari verkfallsaðgerðir

Verkföll nær 1000 starfsmanna í 4 sveitarfélögum hófust í gær í leik, grunnskólum og frístundarmiðstöðvum og bætast við 6 til viðbótar á mánudag. Þá hefjast einnig verkfallsaðgerðir í sundlaugum, íþróttamannvirkjum og leikskólum í 10 sveitarfélögum til viðbótar á landsbyggðinni um og eftir hvítasunnuhelgina og þá verða starfsmenn í verkfalli orðnir um 1600 í 20 sveitarfélögum um allt land. Verkföll fóru vel af stað Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Garðabæ í gær og mikill hugur í fólki.

Enn frekari verkfallsaðgerðir eru þó í undirbúningi hjá BSRB í ljósi þess að ekkert þokast í samningaviðræðum og hefjast atkvæðagreiðslur í dag um aðgerðir í 29 sveitarfélögum. Fari atkvæðagreiðslur á þann veg mun bæði lengjast í verkföllunum og bætast við fleira starfsfólk og starfstöðvar um landið allt, t.a.m. sundlaugar, áhaldahús og bæjarskrifstofur.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna munu liggja fyrir í hádeginu á föstudag og verða kynntar í kjölfarið.

„Starfsfólk sveitarfélaganna er komið með nóg af þessu óréttlæti – og það vill fara í frekari aðgerðir. Það er sjálfsagt réttlæti að fólk fái sömu laun fyrir sömu störf og löngu tímabært að að hækka lægstu launin svo fólk í ómissandi störfum nái endum saman“ – sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?