Kosið um sameiningu SFR og St.Rv. í nóvember

Mögulegur ávinningur af sameiningu hefur verið kannaður síðasta árið.

Viðræður um mögulega sameiningu SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv.), tveggja aðildarfélaga BSRB, hafa gengið vel og er áformað að kjósa um sameininguna í báðum félögum í byrjun nóvember.

Fram kemur í frétt á vef SFR og í frétt á vef St.Rv. að opnuð hefur verið sérstök vefsíða með kynningarefni vegna atkvæðagreiðslunnar. Þegar hafa verið haldnir nokkrir vinnustaðafundir og til stendur að halda fjölmarga fundi til viðbótar víða um land á næstu viku, auk þess sem opnir félagsfundir verða haldnir í félagamiðstöðinni við Grettisgötu 89.

Samstarf félaganna hefur staðið yfir í áratugi og síðastliðið ár hafa stjórnir félaganna, trúnaðarmenn og fulltrúar unnið að því að skoða mögulegan ávinning þess að sameina þessi tvö stærstu félög innan BSRB. Á sameiginlegum fundi trúnaðarmanna SFR og fulltrúa St.Rv. í nóvember fyrir tæpu ári síðan kom fram sterkur vilji til sameiningar og í vor var áfram fundað og þar urðu meðal annars til útlínur nýs félags.

Í kjölfar þess ákváðu stjórnir félaganna að efna til allsherjar atkvæðagreiðslu félagsmanna nú í nóvember. Allir virkir félagsmenn í félögunum munu geta greitt atkvæði. Atkvæðagreiðslan fer fram á sama tíma hjá báðum félögum og þarf meirihluti í báðum félögum að samþykkja sameiningu til að af henni verði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?