Kostnaðarþátttaka sjúklinga tvöfaldast

Kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur næstum tvöfaldast á síðustu þremur áratugum samkvæmt nýrri skýrslu ASÍ um heilbrigðisþjónustuna. Nú er svo komið að heimilin standa undir um 20% af öllum útgjöldum til heilbrigðismála með beinum greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslunni, sem kynnt var á vef ASÍ í gær, segir að heilbrigðisútgjöld íslenskra heimila hafi vaxið mun hraðar en útgjöld hins opinbera á síðustu áratugum. Með því að auka bein útgjöld sjúklinga aukast líkur á því að kostnaður við þjónustuna hindri aðgengi og komi í veg fyrir að ákveðnir hópar fái þjónustu.

Það er ástæða til að fagna þeirri góðu greiningu sem finna má í skýrslu ASÍ. Það er stefna BSRB að ekki megi hrófla við jöfnu aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, enda stuðlar það öðru fremur að auknum jöfnuði.

Þing BSRB samþykkti síðasta haust nýja stefnu bandalagsins. Þar er meðal annars lögð áhersla á að endurskoða gjaldtöku fyrir ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar, með það fyrir augum að draga úr gjaldtöku innan kerfisins. Heilbrigðiskerfið á að veita hverjum þeim sem þarf á aðstoð að halda alla þá þjónustu sem völ er á, án þess að sjúklingurinn verði fyrir kostnaði.

Hundruða þúsunda króna kostnaður

Einnig má benda á mikilvægi þess að endurskoða þátttöku almennings í greiðslu fyrir nauðsynleg lyf. Í fréttum fjölmiðla í kjölfar útgáfu skýrslu ASÍ var rætt við fólk sem greitt hefur hundruð þúsunda í kostnað vegna sjúkdóma sem það glímir við, meðal annars kostnað við kaup á lyfjum. Veikindi valda gjarnan tekjumissi ofan á aðra erfiðleika. Því ætti það að vera réttur þeirra sem veikjast að fá lyf við hæfi án mikils kostnaðar.

Heilbrigðisráðherra hefur þegar boðað endurskoðun á kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að margir bíða eftir þeim tillögum og eru tilbúnir að standa vörð um jöfnuð í íslensku samfélagi.

Fylgstu með BSRB á Facebook!

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?