Krabbamein verði skilgreint sem atvinnusjúkdómur

Aukin notkun plastefna í húsgögnum og húsbúnaði hefur aukið líkur á krabbameini hjá slökkviliðsmönnum.

Slökkviðliðsmenn á Íslandi eru allt að tvisvar sinnum líklegri en aðrar stéttir til þess að fá ákveðnar tegundir krabbameins og meinið þróast líka mun hraðar en almennt gerist hjá öðrum hópum. Slökkviliðsmenn vilja að krabbamein verði skilgreint sem atvinnusjúkdómur.

Dagana 15. og 16. mars verður haldin í Reykjavík alþjóðleg ráðstefna um krabbamein meðal slökkviliðsmanna. Það er Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, eitt aðildarfélaga BSRB, sem stendur fyrir ráðstefnunni. 

Aukin notkun plastefna bæði í húsgögnum og húsbúnaði hefur aukið líkur á krabbameini verulega frá því sem áður var. „Víða erlendis er krabbamein skilgreint sem atvinnusjúkdómur slökkviliðsmanna og það gerir það að verkum að þeir þurfa ekki að benda á ákveðin bruna sem orsakavald eins og krafist er á Íslandi, Skandinavíu og víðar,“ segir  Bjarni Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóri á Höfuðborgarsvæðinu. 

Líkur á krabbameini aukast verulega

Hann segir að strax eftir fimm ár í starfi hafi líkur á krabbameini í þessari stétt aukist verulega. Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um hvaða leiðir hafa verið farnar erlendis til þess að draga úr þessum vanda.  

„Það eru margir þættir sem þarf að skoða til þess að minnka inntöku slökkviliðsmanna á eiturefnum í og eftir reykköfun.  Þar má nefna nýja búnað, bætta vinnuferla, uppsetningu á slökkvistöðum og fleira. Stóra málið er líka árlegar læknisskoðanir til þess að krabbameinið greinist snemma og að það verði viðkennt sem atvinnusjúkdómur,“ segir Bjarni.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast á vef Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?