Krefjumst fjölskylduvænna samfélags

Það er gott að eiga gæðastundir í sumarfríinu en einnig mikilvægt að eiga þær allan ársins hring.

Vonandi njóta sem flestir þess að vera í sumarfríi með fjölskyldu og vinum þessa dagana enda getur verið erfitt að finna tíma fyrir gæðastundir samhliða vinnu og námi. BSRB vill fjölga þessum gæðastundum með fjölskylduvænna samfélagi, til dæmis með styttri vinnuviku.

Einhverjir hafa eflaust heimsótt vini og ættingja á hinum Norðurlöndunum, eða fengið þá í heimsókn til Íslands. Þeir sem þekkja til lífsins hjá frændum okkar í Skandinavíu vita að þar virðist vera auðveldara að samræma vinnu og fjölskyldulíf en við eigum að venjast á Íslandi. Það skýrist ekki síst af því að vinnudagurinn er almennt styttri, minni áhersla á yfirvinnu og sveigjanleikinn oft mun meiri. Þá hafa foreldrar í fæðingarorlofi oft mun meiri réttindi og geta varið meiri tíma með börnum sínum.

Fjölskylduvænt samfélag hefur verið eitt af helstu baráttumálum BSRB lengi. Sérstakur kafli er um þetta mikilvæga mál í stefnu bandalagsins, sem samþykkt var á 44. þingi BSRB haustið 2015.

Krafa bandalagsins er sú að launafólki verði gert kleift að samræma fjölskyldulífið og atvinnu með betri hætti en nú þekkist. Fjölskylduvænt samfélag grundvallast á jafnri stöðu kynjanna og því er þess einnig krafist að launamuni kynjanna verði eytt án frekari tafa og að staða foreldra við uppeldi barna verði jöfnuð.

Þetta kallar á lengingu fæðingarorlofs og hækkun á hámarksgreiðslum í orlofi svo feður ekki síður en mæður taki orlof með börnum sínum. Þá leggur BSRB einnig þunga áherslu á að greiðslur að 300 þúsund krónum á mánuði skerðist ekki, en reglan er sú að foreldrar fái 80 prósent af tekjum sínum frá Fæðingarorlofssjóði.

Vinnuvikan verði 36 stundir

Langur vinnudagur hefur einnig neikvæð áhrif á samþættingu fjölskyldulífs og vinnu. BSRB stefnir á að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 án launaskerðingar. Rannsóknir sýna að hægt sé að stytta vinnutímann með þessum hætti án þess að það bitni á framleiðni starfsmanna.

BSRB tekur þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar. Nánar er fjallað um þau verkefni hér.

Dregið verði úr árekstrum milli skóla og vinnu

Einnig verður að skoða betur samspil atvinnulífs, skóla og heimila með það að markmiði að draga úr árekstrum og minnka álagið á launafólk. Foreldrar þekkja allir hversu erfitt það getur verið að leysa úr vandamálum tengdum starfsdögum, vetrarfríum og öðrum dögum þar sem skólar og leikskólar eru lokaðir.

Við því mætti til dæmis bregðast með sérstökum frídögum til að koma til móts við þarfir foreldra. Einnig þarf að auka réttindi fólks til fjarveru frá vinnu til að sinna veikum börnum, maka, foreldrum eða öðrum nákomnum.

Sveigjanleg starfslok eru einnig mikilvægur þáttur í þeirri þróun að gera samfélagið fjölskylduvænna. Auka verður möguleika starfsfólks til að minnka starfshlutfall og hefja töku á lífeyri að hluta, eða hætta vinna fyrr eða síðar á lífsleiðinni eftir starfskröftum og áhuga.

Lestu meira um fjölskylduvænt samfélag í stefnu BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?