Kynbundinn launamunur 16,3% innan ESB

Konur mótmæltu kynbundnum launamuni með því að ganga út af vinnustöðum 24. október í fyrra.

Karlar í stjórnunarstöðum, ólaunuð vinna á heimilum og kynskiptur vinnumarkaður er meðal þess sem hefur leitt til þess að óútskýrður launamunur kvenna innan ríkja Evrópusambandsins (ESB) mælist nú 16,3%.

Miðað við 16,3% launamun má segja að konur innan ESB vinni launalaust það sem eftir er af árinu, samkvæmt samantekt Evrópusambandsins um kynbundinn launamun.

Tekið hefur verið tillit til styttri vinnutíma á vinnustað, lægra tímakaups og minni atvinnuþátttöku í tölunum, en séu þeir þættir ekki teknir út fyrir sviga sést að tekjur kvenna eru að meðaltali 39,6% lægri en tekjur karla innan ríkja ESB.

Fimm skýringar eru sagðar helstar á óútskýrðum launamuni kvenna í samantekt ESB:

  • Karlar í yfirmannastöðum, sem birtist meðal annars í því að aðeins 6% forstjóra fyrirtækja eru konur.
  • Ólaunuð vinna á heimilum og tengt fjölskyldu, sem konur vinna í mun meira mæli en karlar.
  • Tímabundin fjarvera kvenna frá vinnumarkaði, til dæmis í tengslum við barneignir.
  • Kynskiptur vinnumarkaður þar sem konur tilheyra frekar starfsstéttum sem eru verr launaðar en starfsstéttir þar sem karlar eru í meirihluta.
  • Launamismunun, sem viðgengst enn þrátt fyrir að hún sé ólögleg.

Eins og fjallað hefur verið um á vef BSRB er kynbundinn launamunur að aukast hjá hinu opinbera á Íslandi samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands. Þá hefur verið fjallað nánar um áhrif þess að konur vinni frekar ólaunuð störf á heimilum og við umönnun en karlar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?