Kynbundinn launamunur 3,3% hjá hinu opinbera

Konur mótmæltu kynbundnum launamuni 24. október 2016, á kvennafrídaginn.

Dregið hefur úr kynbundnum launamuni á undanförnum árum. Leiðréttur launamunur mælist nú 4,5 prósent að jafnaði, 3,3 prósent hjá opinberum starfsmönnum en 5,4 prósent á almennum vinnumarkaði samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands.

Launamunurinn var talsvert meiri árið 2008. Þá var leiðréttur launamunur að meðaltali 6,6 prósent, 8,1 prósent á almennum vinnumarkaði en 5,2 prósent hjá hinu opinbera.

Raunvörulegur munur á launum kynjanna er mun meiri en þessar tölur gefa til kynna. Launatekjur kvenna eru að meðaltali 16,1 prósenti lægri en tekjur karla. Munurinn er 16,6 prósent á almenna markaðinum en 15,9 prósent hjá hinu opinbera. Þetta hefur ekki bara áhrif á tekjur kvenna á vinnumarkaði heldur þýðir það einnig að greiðslur úr lífeyrissjóðum eru lægri en hjá körlum.

Í rannsókn Hagstofunnar segir að taka þurfi tillit til þekktra skýringa á kynbundnum launamuni til að skýra mun á launum karla og kvenna. Þannig er leiðrétt fyrir lengri vinnutíma karla, meiri yfirvinnu, ólíkri menntun, ábyrgð, reynslu og fleira.

Aðgerðir á baráttudegi kvenna

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 8. mars. Boðað hefur verið til baráttufundar í Tjarnarbíói klukkan 17 í dag undir yfirskriftinni Konur gegn kúgun. Bandalög opinberra starfsmanna hafa boðað til aðgerða víða um heim. Þannig munu félagar okkar í Frakkland og á Spáni leggja niður störf í dag til að leggja áherslu á kröfu sína um samfélag sem er laust við kynbundna kúgun og ofbeldi, samkvæmt upplýsingum frá EPSU, evrópskum heildarsamtökum opinberra starfsmanna.

Þó kynbundinn launamunur sé mikill hér á landi, um 15,9 prósent, er hann mun meiri víða í Evrópu, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Munurinn mælist 16,6 prósent að meðaltali í Evrópusambandinu, 20,6 prósent í Bretlandi, 21,1 prósent í Þýskalandi og 18,2 prósent í Finnlandi.

Vantar gögn um opinbera starfsmenn

Í umfjöllun EPSU kemur fram að tölur sem notaðar eru til að mæla kynbundinn launamun í Evrópu gefi ef til vill ekki rétta mynd af ástandinu. Víða vanti stóra hópa opinberra starfsmanna inn í útreikningana. „Það vantar 15,1 milljónir starfsmanna inn í þessar tölur, það eru jafn margir og allir starfsmenn á vinnumarkaði í Spáni,“ segir Jan Willem Goudriaan, framkvæmdastjóri EPSU, í frétt á vef samtakanna.

Línurit sem sýnir þróun kynbundins launamunar


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?