Kynjabókhald BSRB

Kynjabókhald BSRB fyrir síðasta starfsár hefur nú verið gert opinbert. Jafnréttisnefnd BSRB hefur í samræmi við ályktun sem samþykkt var á 42. þingi bandalagsins látið taka saman kynjabókhald fyrir BSRB á hverju ári. Nú eru í fyrsta sinn birtar upplýsingar um kynjahlutföll meðal trúnaðarmanna auk þess sem reynt er að varpa ljósi á stöðu ólíkra aldurshópa innan stjórna aðildarfélaga og á meðal trúnaðarmanna.

 

Af kynjabókhaldi BSRB sést að helstu hlutföllin hafa lítið breyst á milli ára en af stjórn BSRB er hlutfall kvenna rúmlega 40% og karla 60%. Stjórn BSRB er skipuð formönnum allra aðildarfélaga og tölurnar segja okkur því jafnframt að fleiri karlmenn eru formenn í aðildarfélögum BSRB en konur.

Þrátt fyrir það eru tæplega 67% félagsmanna BSRB konur en karlar aðeins 33%. Kynjabókhald síðustu ára hefur þannig leitt í ljós að auka þyrfti hlut kvenna í stjórn bandalagsins. Erfitt er hins vegar fyrir BSRB að vinna að slíkri aukningu enda eru formenn stéttarfélaga félagslega kjörnir á aðalfundum félaga.

Stjórnir aðildarfélaga BSRB endurspegla betur kynjaskiptingu sinna félagsmanna. Þegar stjórnir allra aðildarfélaga bandalagsins eru skoðaðar sést að 55% stjórnarmanna eru konur en rúmlega 45% karlar. Þá eru trúnaðarmenn aðildarfélaga BSRB í miklu meira mæli konur, eða 78% á móti aðeins 22% trúnaðarmanna sem eru karla.

Kynjabókhald BSRB má nálgast hér. Þar má sjá helstu hlutföll innan einstakra aðildarfélaga BSRB og hjá bandalaginu í heild.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?