Kynskiptur vinnumarkaður er tímaskekkja

Kröftum þeirra sem vinna að jafnréttisbaráttunni þarf að beina í auknum mæli að því að uppræta þá kynskiptingu sem viðgengist hefur á vinnumarkaði, skrifar Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Kynskiptur vinnumarkaður er ein af helstu ástæðunum fyrir launamuni kynjanna. Flestir þekkja þá staðreynd að konur eru mikill meirihluti starfsmanna í uppeldis- og umönnunarstörfum á meðan karlar eru í meirihluta í verk- og tæknigreinum. Þessu þarf að breyta.

„Þegar við horfum á börnin okkar og barnabörnin vaxa úr grasi erum við örugglega öll sammála því að þessu unga fólki séu allir vegir færir. Að allir hafi möguleika til að gera það sem þeir vilja í lífinu. Það sem hins vegar gleymist í umræðunni er sú staðreynd að náms- og starfsval stýrist meðal annars af kynferði einstaklinga,“ skrifar Elín Björg.

Hún fagnar í grein sinni sérstaklega framtakinu #kvennastarf, átaki sem ætlað er að brjóta niður úreltar hugmyndir um náms- og starfsval kynjanna. Þá bendir hún á mikilvægi foreldra, sem hafa mikil áhrif á náms- og starfsval barna sinna.

Grein Elínar Bjargar má lesa í heild sinni á Vísi, auk þess sem hún birtist hér að neðan.


Upprætum kynskiptan vinnumarkað

Uppræting hins kynskipta vinnumarkaðar er eitt af stóru verkefnunum í baráttunni fyrir jafnri stöðu og jöfnum möguleikum kvenna og karla. Þetta er ofarlega í huga í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Við þurfum að beina auknum kröftum að því að vinna gegn einni af stærstu ástæðunum fyrir launamuni kynjanna, sem er mikil kynjaskipting á vinnumarkaði. Það þekkja flestir að konur eru í miklum meirihluta í uppeldis- og umönnunarstörfum og á meðan karlar eru í verk- og tæknigreinum.

Við búum í samfélagi þar sem hugmyndir um hlutverk kynjanna og staðalímyndir eru rótgrónar. Þessi sýn samfélagsins og einstaklinganna hefur talsverð áhrif á náms- og starfsval ungra kvenna og karla.

Þegar við horfum á börnin okkar og barnabörnin vaxa úr grasi erum við örugglega öll sammála því að þessu unga fólki séu allir vegir færir. Að allir hafi möguleika til að gera það sem þeir vilja í lífinu. Það sem hins vegar gleymist í umræðunni er sú staðreynd að náms- og starfsval stýrist meðal annars af kynferði einstaklinga.

Ef þeir sem starfa í ákveðinni starfsstétt eru að miklum meirihluta af öðru kyninu takmarkar það líkurnar á því að einstaklingar af hinu kyninu velji sér þann starfsvettvang. Þetta þýðir að valmöguleikarnir eru færri og takmarkar frelsi einstaklingsins.

Við verðum að vinna að fjölbreyttum langtímaaðgerðum á öllum stigum skólakerfisins og á vinnumarkaðnum í heild til að breyta þessu. Því vil ég fagna framtakinu #kvennastarf sem er átak í niðurbroti úreltra hugmynda um náms- og starfsval kynjanna og til að benda ungu fólki á möguleikana sem eru fólgnir í fjölbreyttu náms- og starfsvali.

Það er þó einnig vert að benda á mikilvægi foreldra í þessum efnum. Rannsóknir sýna að foreldrar hafa mikil áhrif á náms- og starfsval. Í sumum tilfellum geta þeir verið aðal áhrifavaldurinn. Það er mikilvægt að stuðningur sé fyrir hendi þegar börnin okkar vilja fara óhefðbundnar leiðir og ekki síður að þau séu upplýst um alla náms- og starfsmöguleika.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?