Kynskiptur vinnumarkaður skýrir fjarvistir kvenna

Rannsaka ætti fjarvistir frá vinnu vegna veikinda út frá starfsgreinum en ekki kyni, segir Sara Hultqvist, höfundur skýrslu um fjarvistir vegna veikinda.

Umræður um að konur séu meira fjarverandi frá vinnu en karlar byggja á röngum forsendum, að mati höfundar skýrslu um fjarvistir vegna veikinda og kyn á Norðurlöndunum. Í skýrslunni kemur fram að frekar eigi að leggja áherslu á að sumar starfsgreinar þar sem meirihluti starfsmanna eru konur bjóði upp á óásættanlegar vinnuaðstæður.

Norræna rannsóknarstofnunin í kvenna- og kynjafræðum (NIKK) fjallar á heimasíðu sinni um fjarvistir vegna veikinda og kyn en þar er að finna viðtal við Söru Hultqvist, höfund skýrslunnar. Markmiðið með vinnunni var að fá yfirsýn yfir sálfræðilega heilsu á Norðurlöndunum og muninum á kynjunum þegar kemur að henni.

Vitum lítið um ástæðurnar

Skýrslan sýnir að fjarvistir kenna vegna veikinda eru meiri en fjarvistir karla á öllum Norðurlöndunum. Þar kemur fram að algengt sé að þrjár skýringar séu á þessum muni á kynjunum. Sú fyrsta er það sem kallað hefur verið tvöfalt vinnuálag kvenna, sem eru á vinnumarkaði en bera einnig ríkari ábyrgð á fjölskyldu- og heimilisstörfum. Hinar skýringarnar eru gjarnan taldar vera almenn heilsa kvenna og starfsumhverfi þeirra. Þetta hefur þó ekki verið rannsakað nægjanlega mikið.

„Það sem slær mann mest er að við vitum enn mjög lítið um ástæðurnar. Fáar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli tvöfalda vinnuálagsins og fjarvista vegna veikinda. Ein skýring á því gæti verið að þær aðferðir sem við notum við að rannsaka þetta séu ekki nægilega góðar,“ segir Sara í viðtali við NIKK.

Hún bendir til að mynda á að kona sem vinnur fullan vinnudag en þarf einnig að sinna heimili og börnum geti verið einhleyp og í láglaunastarfi, sem geti haft áhrif á fjarvistir.

Kynskiptur vinnumarkaður hefur mikil áhrif

Sara telur að stór hluti ástæðunnar fyrir mismiklum fjarvistum kynjanna vegna veikinda sé kynskiptur vinnumarkaður þar sem kvennastörfin séu metin minna virði en karlastörfin. Samkvæmt nýlegri sænskri rannsókn er það einkennandi fyrir kvennastéttir að þar eru vandamál í vinnuumhverfinu, meiri líkur á heilsufarsvandamálum og meiri líkur á að starfsmenn hætti störfum vegna veikinda eða óánægju.

Vegna þessa þarf að rannsaka málið út frá starfsgreinum en ekki kyni, til dæmis mætti skoða starfsfólk leikskóla og starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Sara bendir á að samkvæmt núverandi aðferðafræði sé litið svo á að heilbrigður karlmaður sé það sem miða eigi við og konur séu bornar saman við það. Þá segir hún ekki síður mikilvægt að vinna rannsókn þar sem safnað er svörum einstaklinga um ástæður fjarvista vegna veikinda í stað þess að einblína á fjölda fjarvista.

Hægt er að lesa viðtal NIKK við Söru Hultqvist hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?