Ný rannsókn sýnir tengsl milli aukins fylgis við flokka lengst til hægri og skeðingar á félagslegri stöðu fólks milli kynslóða. Niðurstöðurnar varpa ljósi á að sú þróun sem orðið hefur á vinnumarkaði, þar sem ótrygg ráðningarsambönd hafa færst í aukana og grafið hefur verið undan velferðarkerfinu, hefur ekki bara afleiðingar fyrir velferð fólks heldur einnig fyrir heilbrigt lýðræði.
Þetta kemur fram í nýrri stefnumótandi samantekt frá ETUI, rannsóknasetri Evrópsku verkalýðssamtakanna.
Hvað var rannsakað?
Í rannsókninni voru notuð gögn úr European Social Survey (ESS), viðamikilli könnun sem lögð hefur verið fyrir fólk víða í álfunni árlega frá 2002. Gögnin eru notuð til að bera saman félagslega stöðu svarenda og foreldra þeirra, auk þess sem viðhorf til stjórnmála er kannað og hvaða flokk fólk kýs. Þannig er hægt að sjá hvernig samfélagsleg staða fólks hefur breyst milli kynslóða og tengja það við hvort fólk kjósi flokka lengst til hægri. Í könnuninni er félagsleg staða fólks greind eftir tegund starfa sem það vinnur og starfsöryggi, ekki bara launum.
Hverjir kjósa flokka lengst til hægri?
Rannsóknin sýnir að fólk sem býr við lakari félagslega stöðu en foreldrar þeirra er líklegra til að kjósa flokka lengst til hægri en þau sem halda stöðu sinni, eða bæta hana.
Þetta tengist fyrst og fremst efnahagslegu og tilvistarlegu óöryggi á borð við minni lífsánægju, meiri tekju- og atvinnuóvissu og vanmáttarkennd vegna persónulegs ósigurs. Þessi hópur er þó lítill hluti alls kjósendahóps flokka lengst til hægri. Megnið af fylgi þeirra kemur enn frá hópum sem lengi hafa búið við verri kjör og haft litla möguleika til að styrkja stöðu sína.
Rannsóknin eykur því skilning okkar á því að lækkun félagslegrar stöðu frá foreldrum til barna, hefur sjálfstæð áhrif, ofan á það sem áður var vitað um félagslega stöðu og tekjur.
Raunveruleg lækkun í stöðu og upplifunin af henni
Þótt verið sé að mæla raunverulega skerðingu á félagslegri stöðu skiptir máli hvernig fólk upplifir hana. Í löndum þar sem sjaldgæft er að félagsleg staða fólks lækki milli kynslóða, virðist fólk frekar upplifa slíkt sem persónulegan ósigur og niðurlægingu, og þá aukast líkurnar á að það kjósi flokk lengst til hægri.
Þar sem félagsleg færsla niður á við er algengari verða pólitísku áhrifin minni. Í slíku umhverfi virðist fólk oftar sjá sig sem hluta af stærra mynstri og tekur „tapinu“ síður persónulega.
Af hverju skiptir þetta máli í daglegu lífi?
Rannsóknin sýnir að pólitísk þróun í Evrópu tengist beint öryggistilfinningu fólks í daglegu lífi. Þar skiptir atvinnuöryggi miklu eða hvort fólk upplifi stöðuga óvissu, hvort launin dugi fyrir húsnæði og nauðsynjum og hvort fólki finnst börnin sín eiga meiri eða minni tækifæri en þau sjálf.
Þegar fólki finnst félagsleg staða sín eða barna sinna fara versnandi á milli kynslóða skapast jarðvegur fyrir fylgi flokka sem lofa bót með einföldum lausnum og leita sökudólga, oft í tilteknum hópum samfélagsins.
Lærdómur fyrir verkalýðshreyfinguna
Rannsóknin sýnir að öruggar vinnuaðstæður, mannsæmandi laun og sterkt velferðarkerfi skipta ekki bara máli fyrir lífsgæði fólks, heldur einnig fyrir heilbrigt lýðræði. Aðgerðir sem draga úr tekjuóöryggi, styrkja réttindi launafólks og bæta raunveruleg tækifæri til að vaxa og dafna í starfi skapa síður jarðveg fyrir fylgi við flokka lengst til hægri.
Niðurstöðurnar gefa innsýn í hvernig óöryggi og skert tækifæri geta ýtt undir pólitíska ólgu. Þegar fólk upplifir að það sé að færast úr stöðugleika yfir í óöryggi, eykst hættan á að það snúi sér til flokka sem lofa róttækum breytingum. Rannsóknin bendir til þess að áhrifaríkustu mótefnin séu ekki slagorð, heldur betri kjör, sterkari réttindi og raunveruleg von um að börn standi ekki verr að vígi en foreldrar sínir.