Landsfundur bæjarstarfsmanna haldinn á Akureyri

Sonja Ýr Þorbergsdóttir á landsfundi bæjarstarfsmannafélaga

Landsfundur bæjarstarfsmannafélaga fór fram á Akureyri dagana 19.–21. nóvember. Þar komu formenn félaganna og aðrir fulltrúar þeirra saman til að bera saman bækur sínar, ræða kjaramál, fræðslumál og samstarfsvettvang innan BSRB.

Fundurinn var settur af Örnu Jakobínu Björnsdóttur, formanni Kjalar, og í kjölfarið voru formenn félaganna kynningar á sínum félögunum. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fór svo yfir starfsemi bandalagsins, þjónustuviðmið og samstarf við félögin.

 

Þjónusta við félagsfólk, stafrænar lausnir, gervigreind og fræðsla

Í umræðum eftir hópavinnu var rætt um þjónustu við félagsfólk, starfrænar lausnir og gervigreind sem og þjónustuviðmið BSRB. Einnig voru kjaramál fyrirferðamikil á landsfundinum og rýndu þátttakendur í reynslu af síðustu kjarasamningum og möguleikana á meiri samvinnu félaganna þegar kemur að aðgengi að upplýsingum. Þá var Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur með erindi um dyggðasiðfræði og siðferðileg viðmið í starfi. Fræðslumál voru einnig í brennidepli, þar sem lögð var áhersla á að efla trúnaðarmenn, gera hlutverkið meira aðlaðandi og styrkja rammann um aðstöðu og tíma trúnaðarmanna.