Laun á opinberum markaði 17% lægri

Launamunur á milli opinbera og almenna markaðarins er 17% samkvæmt kjarakönnun SFR og samanburði við VR félaga. Borin voru saman laun á milli félagsmanna í sambærilegum störfum og sýndi það sig að enn er almenni markaðurinn talsvert á undan hinum opinbera í launaþróun.

Mikill munur er enn á grunnlaunum  félaganna, þar sem meðalgrunnlaun SFR félaga er rúmar 336 þúsund en meðal grunnlaun VR eru rúmlega 507 þúsund. Þegar heildarlaunin eru skoðuð er munurinn hins vegar mun minni, eða 404 þúsund hjá SFR á móti 535 þúsund hjá VR. Í tilkynningu frá SFR segir:

„Þessi mikli munur á grunnlaunum og heildarlaunum skýrist á afar mismunandi samsetningu launa. Það er ekkert launungarmál að grunnlaunum opinberra starfsmanna er haldið niðri og þeim bætt lágu launin að hluta til með aukagreiðslum, s.s. óunninni  yfirvinnu, eins og rætt hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu. Þrátt fyrir þetta stendur eftir að launamunur á milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði er 17%.

Það kemur því kannski ekki á óvart að ánægja starfsmanna með laun er afar misjöfn eftir því hvort þeir tilheyra opinberum eða almennum markaði, eða 50% ánægja VR félaga á móti 18% ánægju SFR félaga.

Það er einnig athyglisvert í niðurstöðum launakönnunarinnar í ár að launamunur kynjanna hjá SFR stéttarfélagi er mun hærri en hjá fyrirtækjum á almennum markaði, eða rúm 13% hjá VR og 21% hjá SFR ef heildarlaun eru skoðuð. Munurinn er tæp 9% hjá VR og tæp 10% hjá SFR ef einungis eru skoðuð kynbundinn  launamunur, þ.e. leiðréttur munur.“

Nánar um niðurstöður launakönnunar SFR og samanburð milli félaga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?