Launafólk þarf skýr svör frá frambjóðendum

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því ríkisstjórnin sprakk og boðað var til kosninga hafa umræður meira eða minna snúist um persónur og leikendur. Nú þegar rétt rúmar þrjár vikur eru til kosninga verðum við að beina sjónum að málefnunum.

Launafólk þarf að fá skýr svör frá öllum sem sækjast eftir atkvæðum þess hvar framboðin standa þegar kemur að mikilvægum málefnum sem varða okkur öll. BSRB hefur kallað opinberlega eftir því að flokkarnir geri með skýrum hætti grein fyrir afstöðu sinni til fimm málaflokka sem bandalagið telur afar mikilvæga í kosningabaráttunni.

Afstaða BSRB til þessara málefna er skýr og byggir á lýðræðislegri umræðu innan bandalagsins, hagsmunum félagsmanna og landsmanna allra. Málaflokkarnir fimm eru eftirfarandi:

  • Félagslegur stöðugleiki: Áhersla á efnahagslegan stöðugleika án tillits til félagslegs stöðugleika mun ekki skila árangri. Styrkja þarf velferðarþjónustuna verulega og búa almenningi félagslegt öryggi. Grundvöllurinn fyrir félagslegum stöðugleika er réttlátt skattkerfi sem stuðar að auknum jöfnuði.
  • Fjölskylduvænt samfélag: Vinna þarf að því að gera samfélagið fjölskylduvænna, til dæmis með því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir og auka sveigjanleika í starfi. Þá þarf að hækka persónuafslátt, barnabætur, aðstoð við húsnæðiskaupendur og leigjendur og lengja fæðingarorlofið.
  • Heilbrigðismálin: Hækka þar verulega fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og draga úr kostnaði sjúklinga. Tryggja verður að heilbrigðisþjónustan verði rekin af hinu opinbera, ekki einkaaðilum, í samræmi við kröfu yfirgnæfandi meirihluta landsmanna.
  • Vinnumarkaðurinn: Kynbundinn launamunur er algerlega óásættanlegur og honum verður að eyða tafarlaust. Gera þarf átak gegn kynskiptum vinnumarkaði og ljúka vinnu við jöfnun launa á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins.
  • Húsnæðismál: Halda verður áfram með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðiskerfinu með uppbyggingu leigufélaga fyrir tekjulága. Taka verður næsta skref án tafar og hefja uppbyggingu almennra leigufélaga svo leiga sé raunverulegur valkostur við séreignastefnuna.

Nú er kominn tími til að ræða málefnin. Launafólk á rétt á að vita hvaða framboð bera hag þess fyrir brjósti.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?