Launajafnrétti séu mannréttindi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir kynnir skýrslu aðgerðarhóps um launajafnrétti

Virðismat starfa er forsenda þess að launajafnrétti náist á Íslandi, þetta kom fram á á opnum fundi Forsætisráðuneytisins um jafnrétti á vinnumarkaði í morgun, 20. mars.

Á undanförnum árum hafa rannsóknir leitt í ljós að meginástæða launamunar kynjanna sé hinn kynskipti vinnumarkaður og vanmat á störfum kvenna. Í nýlegri rannsókn á launamun karla og kvenna frá Hagstofunni segir: „Kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar.“  Laun eru almennt lægri í störfum sem konur gegna að miklum meirihluta, líkt og í heilbrigðisþjónustu, við menntun og félagsþjónustu, en störfum þar sem karlar eru í meirihluta. Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, sem starfað hefur frá árinu 2021, kom a fót þróunarverkefni um mat á virði starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og kunna að vera vanmetnir í því skyni að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Eitt af markmiðum þróunarverkefnis um virðismat starfa var að búa til verkfæri/kerfi sem gæti fangað jafnvirðisnálgun jafnréttislaga og stuðlað að launajafnrétti kynjanna. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu kynntu skýrslu aðgerðarhópsins á fundinum og niðurstöður þróunarverkefnisins um virðismat starfa.

„Straumhvörfin felast í því að nú verður ekki einungis horft til þess að greidd séu sömu laun fyrir jafnverðmæt störf á sama vinnustað, heldur tryggt að greidd séu sömu heildarlaun fyrir jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði, þótt þau séu ólík, svo lengi sem atvinnurekandi sé sá sami eða launagreiðslur teljast af sama uppruna,” sagði Sonju Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í kynningu sinni. „Launajafnrétti eru mannréttindi - og jafnvirðisnálgun (e. pay equity) er lykilþáttur í að útrýma kynbundnum launamun.” sagði Sonja.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í ávarpi sínu ekki hægt að bíða mörg ár i viðbót eftir launajafnrétti kynjanna, enda liðin meira en 60 ár frá því að launajafnrétti hafi verið leitt í lög hér á landi. Hún sagði kjarasamninga mikilvægt tæki til að flýta mikilvægum samfélagslegum breytingum, og vísaði þar m.a. til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga BSRB (dagsett 13. mars 2020) þar sem starfshópi var falið „…að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Þær aðgerðir skulu hafa að leiðarljósi að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur“ – sem og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um framhald þessarar vinnu frá því í mars á þessu ári þar sem stendur að „… Innleitt verði í áföngum virðismatskerfi sem byggi á tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði."  Hún tók það fram á fundinum að virðismatskerfið yrði innleitt fyrir lok árs 2026 sagði í því felast raunverulega viðurkenningu á mikilvægi kvennastarfa.

Þær aðgerðir sem aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði leggur til og kynntu á fundinum eru eftirfarandi:

  1. Unnið verði áfram með þátttökustofnununum fjórum í áframhaldandi mati allra starfa og farið í launagreiningu. Markmið verði m.a. að meta kostnað við leiðréttingu hópa ef til þess kemur.

  2. Stofnað verði til samstarfsverkefnis um heildstætt virðismatskerfi sem taki til ríkisstofnana til að byrja með. Verkefnið er mikilvægt langtímaverkefni þar sem kalla þarf að borðinu þá aðila sem best þekkja til og byggja á reynslu af slíkum kerfum hér á landi og erlendis.

  3. Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og aðilar vinnumarkaðarins stofni starfshóp sem fengi það hlutverk að þróa samningaleið að nýsjálenskri fyrirmynd með verkstjórn ríkissáttasemjara. Í því felst að komið verði á aðgengilegri samningaleið til að fjalla um jafnlaunakröfur einstaklinga.

  4. Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, aðilar vinnumarkaðarins og Jafnlaunastofa vinni í sameiningu að gerð verkfæra og fræðslu sem styðji við samstarfsverkefni um heildstætt virðismatskerfi.

Að kynningum loknum stýrði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari pallborðsumræðum um vinnu og niðurstöður aðgerðahópsins þar sem þátttakendur voru Halldóra Sveinsóttir, ASÍ, Helga Björg Ragnarsdóttir, Jafnlaunastofu, Jökull Heiðdal Úlfsson, skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Launajafnrétti kynjanna hefur lengi verið eitt af helstu baráttumálum BSRB og verkefnið um endurmat á virði kvennastarfa hefur krafist seiglu. En í góðu samstarfi við fjöldamarga aðila, svo sem Forsætisráðuneytið,  opinberum launagreiðendum, Ríkissáttasemjara, önnur heildarsamtök launafólks og Jafnlaunastofu, færumst við í rétta átt, skref fyrir skref.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér
Virðismat starfa – skýrsla aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði
Virðismatskerfi í þágu launajafnréttis – unnið fyrir aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?