Launakröfur SFR, LL og SLFÍ lagðar fram

Samninganefndir þriggja fjölmennustu aðildarfélaga BSRB sem semja við ríkið – SFR, Landssamband lögreglumanna og Sjúkraliðafélag Íslands – hafa undanfarið fundað með samninganefnd ríkisins. Fyrir helgi kynntu félögin samninganefndinni launakröfur sínar sem byggja á sama ramma og fram kemur í ákvörðun gerðardóms um kjör fólks í aðildarfélögum BHM og Félagi ísl. hjúkrunarfræðinga.

Næsti fundur er á þriðjudag en í millitíðinni mun samninganefnd ríkisins reikna út áhrif krafna félaganna. Árni Stefán Jónsson, fyrsti varaformaður BSRB og formaður SFR, sagði félögin fara fram á leiðréttingu launatafla í takt við ákvörðun gerðardóms um að leiðrétta ætti launatöflur BHM og hjúkrunarfræðinga sem skekkst hafa eftir krónutöluhækkanir undanfarna samninga. Þessi þáttur mun væntanlega flækja útreikningana og því vildi samninganefnd ríkisins fá tækifæri til þess að reikna út áhrif þeirra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?