Leggja til að kjararáð verði lagt niður

Ákvarðanir kjararáðs, meðal annara um launakjör þingmanna og ráðherra, hafa valdið ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði.

Starfshópur sem forsætisráðherra skipaði um málefni kjararáðs leggur til að ráðið verði lagt niður og að laun æðstu embættismanna fylgi þróun launa opinberra starfsmanna.

Starfshópurinn telur að launaákvarðanir kjararáðs hafi ítrekað skapað ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. Þau viðmið sem kjararáð hafi starfað eftir hafi verið óskýr og ósamrýmanleg og því sé nauðsynlegt að breyta fyrirkomulaginu, að því er fram kemur í frétt á vef forsætisráðuneytisins. Hópurinn telur þó ekki framkvæmanlegt að endurskoða ákvarðanir ráðsins afturvirkt.

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og velferðarráðuneytisins, auk fulltrúa BSRB (sem var einnig fulltrúi Bandalags Háskólamanna og Kennarasambands Íslands), Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Í skýrslu hópsins, sem hægt er að nálgast á vef Forsætisráðuneytisins, kemur fram að starfshópurinn leggi til að hætt verði að úrskurða um laun æðstu embættismanna eftir óskýrum viðmiðum. Launakjörin eigi að vera aðgengileg fyrir almenning og auðskiljanleg.

Er því lagt til að laun æðstu embættismanna, í krónum, verði ákveðin í lögum. Launin verði svo endurskoðuð einu sinni á ári og hækki þá í takti við þróun launa opinberra starfsmanna.

Með þessu má, að mati starfshópsins, tryggja að breytingar á launum æðstu embættismanna leiði ekki launaþróun í landinu, eins og gerst hefur með nýlegum úrskurðum kjararáðs. Þá verði kjör þessa hóps gagnsærri og fyrirsjáanlegri þar sem þau þróist í takti við aðra starfsmenn ríkisins.

Þarf sátt um launakjör

„BSRB mótmælti nokkrum úrskurðum kjararáðs kröftuglega og auðvitað er það jákvætt að hlustað hafi verið á þau mótmæli,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. „Við teljum niðurstöðu starfshópsins ásættanlega. Tillögur hans munu vonandi verða til þess að sátt ríki um launakjör þessa hóps í framtíðinni og að umgjörðin um laun æðstu embættismanna verði gagnsæ og auðskiljanleg.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?