Leggja til kvennafrídag árið 2020

Kjörið er að boða aftur til kvennafrís árið 2020, þegar 45 ár verða liðin frá fyrsta kvennafríinu, að mati vinnuhópsins sem skipulagði kvennafrídaginn á síðasta ári. Þetta kemur fram í skýrslu sem tekin hefur verið saman um kvennafrídaginn 2016.

Haldinn var baráttufundur á Austurvelli þann 24. október 2016 undir yfirskriftinni „kjarajafnrétti strax“. Konur voru hvattar til að ganga út af vinnustöðum klukkan 14:38 til að mótmæla kynbundnum launamuni. Þá voru haldnir fundir í að minnsta kosti 19 öðrum bæjarfélögum víða um land.

Vinnuhópurinn telur verkefnið hafa skilað góðum árangri. „Að boða til verkfalls og halda baráttufundi á kvennafrídegi hefur reynst áhrifamikil leið til að vekja athygli á kynbundnum launamun og kjaramisrétti kynjanna, bæði hér á landi og erlendis,“ segir í skýrslu vinnuhópsins.

„Samstöðukraftur er meðal kvenna á Íslandi til að berjast fyrir jafnrétti, og samtök kvenna og samtök launafólks ættu bæði að hlúa að þessum krafti og beita honum markvisst til að bæta samfélag okkar og jafna kjör kynjanna,“ segir þar enn fremur.

Svartur blettur sem þarf að útrýma

BSRB og önnur heildarsamtök launafólks í landinu tók virkan þátt í skipulagningu baráttufundarins. Kynbundinn launamunur er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði sem þarf tafarlaust að útrýma.

Nýr félags- og jafnréttismálaráðherra hefur boðað frumvarp um að fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn verði gert skylt að taka upp jafnlaunastaðal. Mikilvægt er að vandað verði til verka í þeirri vinnu svo hún skili þeim árangri sem allir hljóta að stefna að; að kynbundinn launamunur hverfi út af íslenskum vinnumarkaði í eitt skipti fyrir öll.

Hér má lesa skýrslu vinnuhópsins um kvennafríið 2016.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?