Leikskóli mismunar einstaklingi með fötlun

Garðabær braut gegn lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði með því að falla frá ráðningu menntaðs náms- og starfsráðgjafa, í starf á leikskóla.

Í lok árs 2023 féll áhugaverður úrskurður hjá kærunefnd jafnréttismála sem varðar bann við mismunun vegna fötlunar. Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði banna slíka mismunun og leggja einnig skyldur á atvinnurekendur til að gera viðeigandi ráðstafanir til að gera fólki með fötlun kleift að eiga aðgengi og taka þátt í starfi, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann. Lögin tóku gildi árið 2018 en ekki hefur reynt mikið á ákvæði um mismunun vegna fötlunar og ekki hefur reynt á ákvæðið um viðeigandi aðlögun með svo skýrum hætti áður.

Málið varðar ráðningu í starf á leikskóla í Garðabæ þar sem tveir umsækjendur voru boðaðir í viðtal og féll annar þeirra frá umsókninni. Því stóð ein eftir, konan sem kærði, en hún notast við hjólastól. Leikskólinn hætti við að ráða í starfið og taldi konan því að henni hefði verið mismunað á grundvelli fötlunar sinnar. Ástæðan sem henni var gefin, sem sveitarfélagið hélt einnig fram fyrir kærunefndinni, var að hún hefði ekki næga hreyfifærni til að geta unnið með börnum á leikskólaaldri. Meðal annars var vísað til öryggis barna, viðbragða við slysum og aðgengi fyrir hjólastóla á útisvæði leikskólans. Sveitarfélagið vísaði einnig til þess að í lögunum er undantekning frá banni við mismunun þegar mismunandi meðferð byggist á eðli viðkomandi starfsemi, enda hafi hún lögmætan tilgang og gangi ekki lengra en nauðsyn krefur.

Kærunefndin tók ekki undir þessi sjónarmið heldur byggði á því að fram verði að fara einstaklingsbundið mat á því tilviki sem um er að ræða hverju sinni. Það að konan notist við hjólastól leiði ekki sjálfkrafa til þess að hún geti ekki starfað á leikskóla eða tryggt öryggi barna. Þá var einnig vísað til ákvæðisins um viðeigandi aðlögun, að atvinnurekandi skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að gera fötluðum einstaklingi kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi. Ekki fór fram mat á því hvaða ráðstafana hefði þurft að grípa til og því var ekkert sem gaf tilefni til að ætla að þær væru of íþyngjandi eða umfram það sem eðlilegt má telja, í skilningi laganna. Niðurstaðan var því að konunni hefði verið mismunað á grundvelli fötlunar sinnar.

Eins og áður segir hefur ekki mikið reynt á ákvæði laganna um mismunun á grundvelli fötlunar og hvað felst í því að atvinnurekandi þurfi að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingar með fötlun geti tekið þátt í atvinnulífi. BSRB og önnur samtök launafólks auk samtaka fólks með fötlun og skerta starfsgetu hafa í mörg ár barist fyrir betra aðgengi fólks með fötlun að vinnumarkaði. Setning laga um jafna meðferð á vinnumarkaði var stórt skref, en til þess að lögin virki þarf að beita þeim á réttan hátt. Þetta mál er því mikilvægt fordæmi sem skýrir inntak laganna og skyldur atvinnurekenda að einhverju leyti og gerir það vonandi að verkum að fleiri einstaklingar með fötlun hafi aðgengi að vinnumarkaði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?