Lengja ætti fæðingarorlofið strax

Ástæða er til að fagna því að félagsmálaráðherra hafi nú lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um fæðingarorlof sem byggir á tillögum starfshóps sem kynntar voru síðastliðið vor.

BSRB styður áformaðar breytingar, en bendir á að afar lítill tími er til stefnu fyrir Alþingi að fjalla um málið og samþykkja frumvarpið áður en þing verður rofið og boðað til kosninga. Binda má vonir við að þverpólitískt samkomulag náist um að afgreiða málið hratt og vel á þingi, enda mikil og góð undirbúningsvinna verið unnin í starfshópi, þar sem fulltrúi BSRB átti sæti.

Samkvæmt frumvarpinu verða þrjár afar mikilvægar breytingar gerðar á lögum um fæðingarorlof. Í fyrsta lagi verða tekjur foreldra í fæðingarorlofi óskertar að 300 þúsund krónum á mánuði. Í öðru lagi verða hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi 600 þúsund krónur á mánuði, í stað 370 þúsund króna nú. Í þriðja lagi verður fæðingarorlofið lengt í áföngum úr níu mánuðum í tólf í áföngum á árunum 2019 til 2021.

Hægt er að kynna sér frumvarpið á vef Velferðarráðuneytisins.

Ekki eftir neinu að bíða

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, sagði í hádegisfréttum RÚV um helgina að bandalagið myndi vilja sjá lengingu fæðingarorlofsins fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Hún sagði bandalagið hafa skilning á því að lengingin þyrfti að gerast í þrepum, en sagði enga ástæðu með að bíða með að hefja lenginguna til ársins 2019. Réttara væri að hefja lenginguna um leið og frumvarpið verði að lögum.

Fáir efast í dag um mikilvægi fæðingarorlofsins fyrir börn, enda er því ætlað að tryggja rétt barna til að umgangast báða foreldra sína strax frá upphafi. Annað markmið fæðingarorlofsins er að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Verði frumvarpið að lögum verður mikilvægt skref tekið í að tryggja rétt barna og að auka jafnrétti á vinnumarkaði. Til þess að svo verði þurfa þingmenn að bera gæfu til að setja málið í forgang á stuttu sumarþingi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?