Lífeyrisfrumvarp varð að lögum á Alþingi

Alþingi lögfesti rétt í þessu frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það eru vonbrigði að Alþingi hafi kosið að gera ekki þær breytingar sem BSRB kallaði eftir á frumvarpinu heldur breyta lögum um lífeyrisréttindi félagsmanna bandalagsins án þess að ná sátt um þær breytingar.

Frumvarpið byggði á samkomulagi sem bandalög opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög. Í því samkomulagi er kveðið á um að „réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verði jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar á skipan lífeyrismála sem kveðið er á um í samkomulagi þessu“.

Þrátt fyrir afar skýrt orðalag samkomulagsins kusu stjórnvöld, og nú Alþingi, að rjúfa það traust sem bandalög opinberra starfsmanna sýndu þegar fulltrúar þeirra undirrituðu þetta samkomulag þann 19. september síðastliðinn. Traust milli aðila er lykilforsenda þess að friður ríki á vinnumarkaði og því er miður að Alþingi hafi rofið það traust með því að samþykkja frumvarp sem endurspeglar ekki þetta grundvallaratriði samkomulagsins.

Verðmæti tekin af hluta sjóðfélaga

BSRB gerði í umsögn sinni aðallega athugasemdir við að frumvarpið endurspegli ekki samkomulagið þar sem þar sé ekki tryggt að réttindi allra sjóðfélaga verði jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar. Nú hefur bakábyrgð launagreiðenda verið afnumin fyrir þá sem ekki eru orðnir 60 ára. Í þeirri bakábyrgð voru fólgin verðmæti sem ekki eru á nokkurn hátt bætt með þeim lagabreytingum sem Alþingi hefur samþykkt.

Alþingi hefur samþykkt þessar veigamiklu breytingar á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna án þess að ná sátt um þær breytingar meðal bandalaga opinberra starfsmanna. Því er ljóst að verkefninu er ekki lokið. BSRB mun því halda áfram að vinna að framgangi þessa máls til að tryggja þau réttindi sem Alþingi hefur afnumið með lögum. Þá er augljóst að þetta verklag mun hafa neikvæð áhrif á samskipti bandalagsins við stjórnvöld.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?