Lítill gangur í kjaraviðræðum

„Það eru mikil vonbrigði að við höfum ekki náð að þokast nær ásættanlegri niðurstöðu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Lítið hefur þokast í samkomulagsátt í kjaraviðræðum BSRB við viðsemjendur undanfarna daga. Rætt hefur verið um útfærslu styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og jöfnun launa milli markaða án þess að niðurstaða hafi náðst. Verkföll aðildarfélaga bandalagsins munu hefjast mánudaginn 9. mars ef kjarasamningar nást ekki fyrir þann tíma.

„Það eru mikil vonbrigði að við höfum ekki náð að þokast nær ásættanlegri niðurstöðu. Það er stutt í að verkfallsaðgerðir hefjist og mörg stór mál sem bíða úrlausnar,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Kjarasamningar þorra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá 1. apríl 2019, eða í um 11 mánuði. Aðildarfélög bandalagsins hafa falið BSRB að semja um stór sameiginleg mál á borð við styttingu vinnuvikunnar, orlofsmál, launaþróunartryggingu, jöfnun launa á milli markaða og fleira. Launaliðurinn og sértæk mál eru hins vegar á borði hvers aðildarfélags.

AðgerðaráætluninEinstök aðildarfélög hafa átt fundi með viðsemjendum undanfarna daga og hefur árangurinn af þeim fundum verið misjafn. Góðar fréttir bárust frá Sameyki, sem undirritaði í gær kjarasamning við Faxaflóahafnir vegna rúmlega tuttugu félagsmanna. „Fulltrúar í samninganefnd eru afar ánægðir með samninginn, enda má í honum finna flest þau atriði sem félagið hefur verið að berjast fyrir,“ segir meðal annars um samninginn í frétt á vef Sameykis. 

Viðræður Sameykis við aðra viðsemjendur ganga verr. Fundur með samninganefnd ríkisins á þriðjudag var tíðindalítill og lítill áhugi á því hjá viðsemjendum félagsins að ná samkomulagi. „Það verður að segjast að þrátt fyrir þessi góðu tíðindi sem greint er frá hér að ofan þá er ekki mikil bjartsýni ríkjandi í okkar herbúðum og undirbúningur fyrir verkfall því í fullum gangi,“ segir í frétt félagsins.

Fundi aflýst hjá bæjarstarfsmannafélögum

Samninganefnd Sjúkraliðafélags Íslands fundaði með samninganefnd ríkisins í gær þar sem kröfur félagsins og viðbrögð sjúkraliða við samningstilboði ríkisins voru rædd. Í færslu á Facebook-síðu félagsins segir að samninganefndin sé „hóflega bjartsýn“ um framgang viðræðnanna. Næsti samningafundur hefur verið boðaður 2. mars.

Fundur bæjarstarfsmannafélaga með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, sá fyrsti í rúman mánuð, var afboðaður stuttu áður en hann átti að hefjast á þriðjudag. Ástæðan var sú að samninganefnd Sambandsins hafði ekki unnið heimavinnu sína og því ekkert til að ræða á fundinum, eins og rakið er á Facebook-síðu Kjalar stéttarfélags.

Verkföll hefjast 9. mars

Takist samningar ekki fyrir 9. mars munu aðildarfélög BSRB hefja boðaðar verkfallsaðgerðir. Aðgerðirnar munu hefjast með tveggja daga allsherjarverkfalli 9. og 10. mars. Þann 9. mars munu ákveðnir hópar einnig hefja ótímabundið verkfall til að leggja áherslu á kröfur félaganna.

Nánari upplýsingar um boðaðar verkfallsaðgerðir má finna hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?